137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er orðið hálfskondið. Það er boðaður fundur í hv. viðskiptanefnd á morgun og ég hafði óskað eftir því við nefndasvið hvort hægt væri að halda aukafund í fyrramálið kl. 8.30 til að bæta við tíma nefndarinnar og reyna að koma við umbeðnum fundi. Það reyndist ekki gerlegt vegna annarra funda sem þá eru. En eins og ég segi: Fundur verður haldinn við fyrsta mögulega tækifæri. Það er greinilegt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson treystir ekki þeirri sem hér stendur til að boða fund við fyrsta mögulega tækifæri um þetta efni og ég get ósköp litlu meira við það bætt sem ég hef sagt fyrr bæði í dag og í gær. Ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki á þessari áráttutengdu hegðun að halda því sífellt fram að sú sem hér stendur vilji ekki af einhverjum ástæðum halda fund í viðskiptanefnd. Það er að mínu viti ekki sæmilegt, frú forseti, vegna þess að hér hefur verið upplýst í þingsal bæði í dag og í gær hvernig að þessum málum er staðið, einnig í hádeginu í dag í hv. viðskiptanefnd þar sem umræddur þingmaður á sæti.