137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni að við, bæði ríkisstjórn og Alþingi, þurfum að gera allt sem við getum til þess að finna leiðir til að létta undir með heimilum og fyrirtækjum sem eiga um sárt að binda og eru í erfiðleikum. En eins og ég rakti ítarlega í ræðu minni tel ég að þegar horft er til framtíðar muni aðild að Evrópusambandinu skipta miklu máli. (Gripið fram í.) Ég tel að hún muni skipta gríðarlega miklu máli fyrir fyrirtækin í landinu. Og ég held, vegna þess að mér er umhugað um að reyna að berja niður atvinnuleysið sem er mesti voðinn sem steðjar að okkur núna, að aðild að Evrópusambandinu og jafnvel einungis umsókn mundi skipta máli í því. (Gripið fram í.)

Ég tel að ef okkur tækist að ná samningum við Evrópusambandið mundi það leiða til þess að það væri miklu auðveldara fyrir okkur að ná erlendum fjárfestingum inn í landið og við þurfum þeirra við — það vita hv. þingmenn — til að vinna bug á atvinnuleysinu. (Gripið fram í.) Og er það virkilega þannig að hv. þingmenn (Forseti hringir.) telji að það skipti ekki máli hvort útlendingar komi með peninga hingað til þess að byggja upp ný fyrirtæki, til þess að hjálpa okkur til að nýta þær auðlindir sem við eigum? (Gripið fram í: Selja auðlindirnar?)