137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni verður tíðrætt um heitar tangir en ég held að það sé eðlilegt að kalla eftir svörum hans við bæði greinaskrifum en ekki síður ræðuflutningi á Alþingi um málið.

Í umræðum í framhaldi af greinaskrifunum í desember hrósaði ég hv. þingmanni sérstaklega fyrir þá forustu sem hann tók í umræðunum og einkanlega fyrir það viðhorf að mikilvægt væri fyrir þjóðarhagsmuni að rífa þetta mál upp úr flokkapólitíkinni, upp úr flokkadráttunum, fara í viðræðurnar, fá niðurstöðu og taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu til þeirrar niðurstöðu. Þess vegna undrar mig að hv. þingmaður kalli eftir því að hér liggi fyrir hreinar flokkslínur og gagnrýni að hér gangi ekki allir í takt og séu ekki búnir að lýsa því yfir fyrir fram að þeir muni styðja niðurstöðuna þegar hún kemur. Ég hlýt þess vegna að spyrja, eftir þær umræður sem við hv. þingmaður áttum í þingsalnum í desember, hvort hann sé ekki örugglega enn þá þeirrar skoðunar að það eigi einmitt (Forseti hringir.) að taka þetta mál upp úr skotgröfum flokkastjórnmálanna og fara í málefnalegar viðræður og að menn áskilji sér rétt til að taka efnislega afstöðu. (Forseti hringir.) hver og einn til þeirra niðurstaðna.