137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér talaði nýr þingmaður á þingi sem maður hefði haldið einmitt að tæki ekki þátt í þessari gömlu og gamaldags pólitík, hjólfarapólitík sem hann vitnaði í hér áðan. (Gripið fram í: Ert þú ekki ...) Þetta var frekar gamaldags og eiginlega bara pínulítið lummó því ef ég hefði — ég bjóst eiginlega við því af þessari ríkisstjórn að hún mundi fá alla flokka fyrr að málum, (Gripið fram í.) fá alla flokka fyrr að málinu í þessu mikilvæga máli. Miðað við Samfylkinguna þá gerist það ekki. Það er bara verið að djöfla þessu í gegn eins og það átti að djöfla í gegn breytingum á okkar grundvallarplaggi núna á síðustu dögum þings fyrir kosningar. Og viti menn, þar hafa menn þá hlustað í ríkisstjórninni. Nú eru menn að koma fram með tillögur sem við sjálfstæðismenn vorum meðal annars að tala um að væri miklu betri leið til dæmis varðandi ráðgefandi stjórnlagaþing eða almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það getur rofað til hjá flokkunum og fólki. Ég vona að það geri líka hjá þeim sem styðja Samfylkinguna.

Það sem um er að ræða er og ég segi það aftur: Ég vil sækja um aðild að Evrópusambandinu en ég vil ekki gera það á þessum forsendum því mér finnst til vansa hvernig hefur verið unnið að þessari tillögu. Það er eins og menn hafi ekki lesið þá vinnu sem hefur verið unnin í áranna rás og ekkert nýtt sér þá vinnu sem þar liggur fyrir, hvað þá sýnt pólitískan kjark eða hugrekki til að setja inn eina eða tvær setningar um það af hverju sé gott að fara þessa leið. Við skulum bara segja söguna eins og hún er og veruleikann eins og hann er. Þetta var bara til að koma ríkisstjórninni saman. Þetta er bara plagg upp á punt, ekki er neitt pólitískt innihald.