137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:42]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans innlegg, við erum ekki fjarri hvor öðrum í þessu máli. Aðalatriðið er að fá upp á borðið þá möguleika sem eru til staðar, einnig í sjávarútvegsmálum. Ég er hvergi hræddur við þann kafla samningsins. Hvað er t.d. það sem sjávarútveginn vantar hvað mest núna? Það er fjármagn. Ótti margra í þessum efnum hefur verið erlent fjármagn inn í sjávarútveginn. Kannski er það akkúrat það sem hann vantar. Hverjir hafa fjárfest mest í sjávarútvegi í Evrópu á síðustu árum? Ég segi kannski ekki endilega mest en alla vega mjög mikið, það eru jú Íslendingar sjálfir.

Það er nú hjákátlegt í sjálfu sér ef svo færi að við færum í annað þorskastríð, sem ég ætla að við gerum ekki, að þá værum við sennilega að berjast mest við okkur sjálf, Íslendingar. Það erum við sem höfum verið að fjárfesta mjög mikið í erlendum sjávarútvegi á síðustu árum og hvers vegna þá ekki að hleypa erlendu fjármagni inn í íslenskan sjávarútveg sem að sögn, með leyfi forseta, ég held að ég fari með réttar tölur, skuldar u.þ.b. 500 milljarða?

Allt þetta verður að vera uppi á borðinu í galopinni umræðu um kosti og galla þessa máls. Ég ætla ekki að halda því fram að möguleg aðild að Evrópusambandinu sé gallalaus. Það væri fjarstæða. En við erum að leggja upp í þennan leiðangur til að athuga hvort kostirnir séu fleiri en gallarnir.