137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni um það að þingmenn úr mínum flokki hafi farið harkalega gagnvart þessari tillögu. Ég rifja það upp að t.d. hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og ýmsir aðrir þingmenn sem hafa flutt ræður um þetta hafa talað með jákvæðum hætti um það meginefni sem er að finna í tillögunni.

Varðandi það atriði sem hv. þingmaður spurði mig um áðan eru ýmsar leiðir sem menn geta hugsað sé um það með hvaða hætti samningur er staðfestur. Eins og málið liggur fyrir núna þegar stjórnarandstaðan óskar eftir því að utanríkismálanefnd marki vegvísi, þá held ég að rétt sé að við hlustum bara á það sem þingmenn hafa að segja. Ég sit ekki í utanríkismálanefnd en ef hv. þingmaður sem þar situr vill kalla á mig þangað er sjálfsagt að ég ræði það við nefndina.