137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru Íslendingar tæp 319.500 í ársbyrjun 2009. Samkvæmt sömu heimild frá fyrsta ársfjórðungi 2009 eru einungis 123.500 einstaklingar í fullu starfi á vinnumarkaði og 42.000 einstaklingar í hlutastarfi. Það er því minna en helmingur þjóðarinnar sem er á vinnumarkaði í dag og enn færri miðað við þessar tölur því að nú er annar ársfjórðungur að renna sitt skeið á enda.

Hvernig á svo smá og fámenn þjóð sem varla er fjölmennari en meðalstórt fyrirtæki erlendis að standa undir þeirri fjárglæfrastarfsemi sem teygði anga sína um allan heim og olli hér að lokum á haustdögum bankahruni? Engu var eirt og nú hefur verið sannað að bótasjóður tryggingafélags var veðsettur þvert á lög og reglur. Sjávarútvegsfyrirtæki voru rekin sem fjármögnunarfyrirtæki og lífeyrissjóðirnir voru í afar áhættusömum og hæpnum fjárfestingum sem líklega fást aldrei bættar. Þessu eiga 148.000 einstaklingar að standa undir með skatttekjum sínum. Hér er eitthvað galið á ferðinni, frú forseti.

Hæstv. forsætisráðherra lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu í morgun að staða landsins væri mun verri en áður var talið. Bíðið þið við. Eru þetta fréttir? Eru þetta nýjar fréttir? Framsóknarflokkurinn hefur bent á þessa staðreynd í marga mánuði, að hér séu fjölskyldur sem eru í verulegum vandræðum og heimili þeirra eru að brenna upp vegna eignaupptöku og eignarýrnunar í boði ríkisstjórnarflokkanna.

Á Framsóknarflokkinn er ekki hlustað frekar en aðra sem koma með góð ráð. Hrokinn er slíkur. Hér lét einn hv. stjórnarþingmaður hafa eftir sér í ræðu að sjónarmið Framsóknarflokksins hefðu orðið undir í kosningunum og þess vegna ættum við ekki að halda þeim fram hér í umræðu á Alþingi. Þessi málflutningur sýnir það eitt að ekki skuli taka undir neitt af því sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa, hversu gott sem það er og jafnvel þótt það bjargi hér heimilum og fjölskyldum í landinu frá þroti.

Þetta er vinstri græna velferðarríkisstjórnin sem einhverjir voru að bíða svo lengi eftir. Það er augljóst að ríkisstjórnin hefur engan skilning á verkefni sínu eða ástandi mála hvað varðar íslenskar fjölskyldur. Áfram skal staðið með fjármagnseigendum og lánardrottnum. Ríkisstjórnarflokkarnir, fjármagnseigendur og lánardrottnar vita sem er að íbúðalánaeigendur eru bestu skuldarar sem völ er á. Því kemur niðurfelling skulda hjá þessum hópi ekki til greina hjá ríkisstjórninni.

Þess vegna, frú forseti, á ekkert að gera fyrir heimilin í landinu. Þau eiga að standa af sér storminn eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan úr þessum ræðustól. Jafnframt vil ég benda á að sá einstaklingur sem fer í gjaldþrot stendur ekki af sér neinn storm. Honum er kastað á dyr. Honum er kastað út úr samfélaginu og því skulum við taka eftir og muna.

Hér hefur orðið alvarlegt siðrof í boði ríkisstjórnarinnar. Því spyr ég enn á ný úr þessum ræðustól: Ætlar ríkisstjórnin að nota tillögu Framsóknarflokksins? Á að fara í skuldaniðurfellingu til að bjarga því sem bjargað verður? Tíminn er að hlaupa frá þjóðinni. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í málefnum heimilanna annað en að skuldajafna, lengja lán, loka augunum og fara í kynningarátak? Þjóðin vill fá svör.