137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum smám saman að nálgast í þessu. Ef við fengjum að vera í andsvörum í allan dag yrðum við sennilega sammála í restina.

Það er algjörlega ljóst að þetta tiltekna fyrirtæki sem nefnt var hérna er verðlaust. Þess vegna er ekkert borgað fyrir lánasöfn þess fyrirtækis. Ef það hefur verið flutt yfir hefur það verið flutt yfir á núlli.

Sum fyrirtæki voru flutt yfir á segjum 95%, önnur á núlli. Þessi 50% sem við höfum verið að tala um, sem er tala til að ganga út frá einhverju, var það sem menn héldu í upphafi en er alls ekki rétta talan. Talan verður sennilega lægri og því lengur sem hæstv. fjármálaráðherra dregur að klára þetta mál þá lækkar þessi tala í samræmi við það. Hún lækkar dag frá degi og þetta er alltaf að verða verðlausara og verðlausara.

Við eigum að snúa okkur að stjórnarandstöðu í staðinn fyrir að vera í andstöðu hver við annan. Ég held að það sem sé brýnast núna, allra brýnast, sé að setja fram einhverja raunhæfa áætlun, t.d. í ríkisfjármálum. Það er ágætt að byrja á því og klára þessa banka. Við getum sest yfir það í staðinn fyrir að vera með hótfyndni og skæting þegar koma fram hugmyndir, eins og hæstv. fjármálaráðherra var með á sínum tíma. Ef þú manst það ekki, afsakaðu forseti, ef þú manst það ekki þá sagðirðu að það væri nú ekki mikið að marka svona hugmyndir frá manni sem kynni ekki einu sinni að reka banka. Við ættum að geta sest niður og (Gripið fram í.) rætt þetta af einhverju viti, ekki vera í þessum skotgröfum.