137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:04]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt sem hv. þingmaður heldur fram að þetta mál snúist um að koma í veg fyrir að fólk fari í gjaldþrot. Þetta mál snýst alls ekki um það. Tillagan snýst um það að fólk sem getur fullvel staðið í skilum með skuldbindingar sínar fái þeim létt af sér á kostnað annarra sem ekki stofnuðu til þeirra skuldbindinga. Það er bara mjög erfið ákvörðun að taka og takmarkað félagslegt réttlæti í því.

Við munum hins vegar grípa til margháttaðra aðgerða eins og við höfum þegar gert til að mæta þörf þess fólks sem er í hættu að fara í gjaldþrot, en þessi leið er ekki til þess fallin að gera það. (Gripið fram í.) Nei, hv. þingmaður, það er ekki rétt. Þvert á móti höfum við búið til fjölþættan aðgerðapakka sem gerir fólki kleift að losna undan skuldbindingum sem hafa reynst þeim ókleifar. Við munum síðan greiða fyrir öllum þorra fólks til að það eigi auðveldara með að standa í skilum með afborganir við þær erfiðu aðstæður sem nú eru og þannig reynum við að byggja réttláta lausn sem gagnast öllum en sérstaklega þeim lakast eru staddir.