137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vextir og verðtrygging.

62. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég mundi vilja fá að ljúka umræðunni með nokkrum punktum sem þar komu fram. Ástæðan fyrir því að við tölum um 4% sem hámark er sú að það voru, að mér skilst, viðmið Seðlabankans, ef okkur rámar í það var talað um 2,5% verðbólgumarkmið og síðan 1,5% skekkjumörk. Þetta var markmið Seðlabankans varðandi verðbólgu á Íslandi og 1. gr., sem hefur sérstaklega verið rædd hér, er samkvæmt tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég stend við allt sem kemur fram í greinargerðinni um mikilvægi þess að verið er að deila áhættunni milli skuldara eða lántaka og lánveitenda með þessari tillögu.

Ég velti því líka aðeins fyrir mér að þegar við settum á þessi lög, Ólafslögin, á sínum tíma — það tók okkur að vísu nokkur ár að koma verðtryggingunni almennilega á — var staðan þannig í heiminum að það var óðaverðbólga í mörgum öðrum löndum en bara á Íslandi. Mörg lönd voru að fást við verðbólgu. En við virðumst hins vegar einhvern veginn hafa fest í því að vera alltaf að fást við þessa blessuðu verðbólgu og höfum því nýtt verðtrygginguna. Það má kannski halda því fram að við höfum nánast trúað blint á verðtryggingu fjárskuldbindinga, að hún sé bara eina úrræðið sem við höfum þegar verðbólgan vex, e.t.v. vegna lægra gengis krónunnar eða óskiljanlegra stýrivaxta. Og það hefur kannski ekki verið nægur hvati bæði hjá hinu opinbera og einkaaðilum að vinna saman í því að halda verðbólgunni niðri.

Ég held að við munum öll eftir því, þeirri tilfinningu, þegar við horfðum upp á Seðlabankann vera nánast einan í því að berjast við verðbólguna. Það var enginn tilbúinn til að hjálpa Seðlabankanum í að berjast við verðbólguna. Ef við hefðum haft svona ákvæði í lögunum hefði kannski verið meiri hvati fyrir aðra stóra aðila í íslensku efnahagslífi til að bakka Seðlabankann upp í að halda niðri verðbólgunni.

Við höfum gert það á Íslandi að kippa út launavísitölunni, hún var tekin úr sambandi þegar það hentaði, en á sama tíma mátti hins vegar neyslu-, lánskjara- og húsnæðisvísitala leika hér algjörlega lausum hala.

Skoðun mín er sú að skuldarar á Íslandi, lántakendur, hafa nánast verið réttlausir en lánveitendur hafa verið með belti, axlabönd og snæri og ég hef stundum sagt, jafnvel með límt upp um sig, meira að segja núna þegar við horfum fram á meintar brotnar forsendur lánasamninga og einmitt jafnvel vegna þeirrar verðbólgu sem verðtryggingin átti að slá á, hún átti að koma í veg fyrir þessa verðbólgu (PHB: Það er ekki rétt.) og vinna á henni.

Ef miklir peningar eru í umferð er það náttúrlega líka ákveðinn hvati fyrir verðbólgu. Þá veltir maður líka fyrir sér hvort það geti verið, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um, að verðtryggingin hafi gert það að verkum að sparifjáreigendur voru tilbúnir til að lána peninga. En getur það kannski líka hafa hvatt fólk til að taka lán, að þetta hafi verið komið í eitthvert rugl, að það hafi eitthvað verið í okkar samfélagi sem gerði það að verkum að við náðum ekki að þróast á sama máta og flest önnur vestræn ríki og takast á við verðbólguna af ábyrgð af því að við treystum alltaf á verðtrygginguna?

Það hefur líka sýnt sig, af því að það kom sérstaklega fram í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann hefur mjög miklar áhyggjur af lífeyrissjóðunum og hvaða áhrif þetta mun hafa á þá, að hlutfall eigna lífeyrissjóðanna sem eru verðtryggðar hefur farið lækkandi, það var hátt í 100% en er komið, síðustu tölur sem ég hef séð, niður í helming. Ég skal ekki alveg fullyrða það en mér sýndist það t.d. þegar ég var á aðalfundi Lífeyrissjóðs verslunarmanna að það væri komið vel undir helming. Og það er eitt sem ég hefði líka mikinn áhuga á að ræða, kannski við annað tilefni, við hv. þm. Pétur H. Blöndal af því að hann er náttúrlega mikill sérfræðingur í lífeyrissjóðunum, hvort sú staðreynd að við erum komin með svona stóra sjóði, sjóði með svona mikla fjármuni, að þeir í sjálfu sér jafnvel hvetji til verðbólgu, hinir ofboðslegu fjármunir sem þeir hafa á milli handanna. Hvort svona lítið hagkerfi eins og Ísland er ráði jafnvel ekki við það að hafa svo miklu fjármuni inni í sínu efnahagskerfi og verði þess vegna kannski jafnvel að íhuga það að fara að fjárfesta fyrst og fremst erlendis sem eru svo að vísu andstætt því sem við erum að velta fyrir okkur, eins og mér skilst í kringum stöðugleikasáttmálann.

Ég þakka hins vegar kærlega fyrir umræðuna og vonast eftir góðri umræðu um málið innan viðskiptanefndar, en ég mundi gjarnan vilja vísa málinu þangað að lokinni umræðunni.