137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[11:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé rangt hjá hv. þingmanni bæði hvað varðar fasteignaveðlánin og eins lán fyrirtækja að fyrri ríkisstjórn — nema hann eigi þá við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar — hafi kastað út af borðinu hugmyndum eða leiðum sem gætu leitt til þess að höfuðstóll skulda væri minnkaður. Ég held að það sé algjörlega rangt.

Í öllu falli skil ég það svo hjá hv. þingmanni og er honum ekki ósammála um að þær gagnsæju almennu reglur sem þurfa að liggja til grundvallar lausnum gagnvart fyrirtækjum fela eigi að síður í sér klæðskerasniðnar lausnir fyrir hvert einstakt fyrirtæki. Ég held að það sé ekki hægt annað ef menn ætla að fara í þetta á annað borð en að taka hvert mál fyrir sig út frá þessum almennu reglum sem hv. þingmaður er að tala um en að það verði að meta stöðu hvers fyrirtækis fyrir sig. Ég held að það verði að beita klæðskerasniðnum lausnum alveg eins og ég held að þurfi gagnvart þeim sem verst eru staddir í hópi fjölskyldna og einstaklinga varðandi þessi fasteignaveðlán. Það getum við kannski rætt frekar síðar í dag.

Almennt er ég þeirrar skoðunar að þessar tillögur séu mjög gott innlegg og að fjalla eigi um þær (Forseti hringir.) ásamt þeim tillögum sem ríkisstjórnin leggur fram í næstu viku. Ég tel það og ég er sammála hv. þingmanni um (Forseti hringir.) að það á að reyna að ná sem mestri samstöðu um hugmyndir af þessum toga.