137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef þegar sagt fyrr í umræðunni að mér finnst sú nálgun sem er að finna í þessari tillögu vera mjög jákvæð. Ég held að það skipti miklu máli af hálfu okkar stjórnmálamanna að við sjáum ekki bara svartnættið eitt þrátt fyrir þá erfiðu stöðu sem við erum í, heldur leyfum okkur líka þann munað að sjá tækifærin. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór vel yfir þau og ég var sammála öllu sem hann sagði um innviðina og grunngerð samfélagsins. Hún er í góðu lagi.

Við búum sömuleiðis við ákaflega sterkar náttúruauðlindir og mikla möguleika til að nýta þær til að skapa bæði störf og það sem við þurfum ekki síður á að halda, gjaldeyri. Hv. þingmaður sagði jafnframt um orkuauðlindirnar að við yrðum að nýta þær. Þar stendur hnífur í hinni margfrægu kú. Staðan er auðvitað þannig að við höfum fullan vilja til að nýta þessar orkuauðlindir og ég er algerlega sammála því sem kemur fram í tillögunni um fjölbreytta notkun náttúruauðlinda. Ég er líka sammála því sem segir í þessari tillögu, að menn eigi ekki bara að einblína á ál. Það er í fyrsta skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur svo til orða. En hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vita jafn vel og ég að við höfum átt í miklum erfiðleikum með að fjármagna orkuframkvæmdir. Þess vegna hef ég sagt, með vísan til þeirra ágætu laga sem samþykkt voru að tilhlutan ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, að við eigum að leita allra leiða í þeim efnum, t.d. að kanna hvort einkamarkaður geti komið inn í það. Lögin heimila það nú með skýrari hætti en áður. Sömuleiðis tel ég að við eigum að reyna að skoða hvort þeir sterku sjóðir sem hv. þingmaður talaði um áðan, lífeyrissjóðirnir, geti með einhverjum hætti komið inn í það.

Ég hef spurt hvers vegna lífeyrissjóðir sem þurfa að láta fé sitt vinna með þokkalega góðri ávöxtun til að sjá um umbjóðendur sína í framtíðinni skyldu ekki velta fyrir sér að fjármagna, þess vegna eiga og jafnvel reka, a.m.k. um einhvern tíma, framkvæmdir eins og Búðarhálsvirkjun. Við vitum að hún liggur á borðinu með öll leyfi, okkur vantar hana, okkur vantar þau 85–100 megavött. Það sem skiptir máli er að menn sjái ljós í myrkrinu og það skiptir máli að menn tali upp stöðuna. Það verður að gefa fólkinu líka von. Það má ekki bara tala það niður.

Fyrir okkur sem stjórnmálamenn skiptir tvennt máli. Við verðum að geta sýnt umheiminum og sjálfum okkur fram á það að við höfum trúverðuga áætlun til að koma okkur út úr kreppunni og erfiðleikunum. Í öðru lagi þurfum við líka að geta sýnt umheiminum fram á að við höfum tækifæri til að ná aftur fyrri styrk og koma jafnvel út úr kreppunni með dreifðari áhættu í atvinnulífinu en áður. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að taka fimm skref til að koma okkur út úr þessari kreppu. Við höfum þegar tekið fyrsta skrefið. Sá samningur sem við gerðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var algjör forsenda þess að okkur tækist að leggja í þennan leiðangur.

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu máli fyrir okkur að ljúka samningum um Icesave og klára það verk sem Alþingi fól okkur 5. desember með þingsályktun. Það hefur ríkisstjórnin gert fyrir sitt leyti. Alþingi á eftir að samþykkja það mál, eða fella eftir atvikum, en þetta er skref nr. tvö.

Í þriðja lagi verða ríkisstjórnin og Alþingi að samþykkja áætlun um niðurskurð og tekjuöflun sem gerir það að verkum að innan 3–4 ára rekum við ríkissjóð án halla. Þar stendur upp á ríkisstjórnina. Þær tillögur munu verða sýndar í næstu viku. Ég er þeirrar skoðunar að þær merku tillögur sem hér eru og aðrar sem fram hafa komið eigi að vinna saman í nefndinni með þeim hugmyndum sem koma í frumvarpsformi frá ríkisstjórninni.

Í fjórða lagi er síðan endurskipulagning bankakerfisins. Hún skiptir óskaplega miklu máli. Það er það sem síðustu þrjár ríkisstjórnir hafa unnið að með takmörkuðum árangri. Nú loksins hillir undir lok þess verks.

Um bankana vil ég segja að þeir starfa undir gríðarmiklu álagi og við stjórnmálamenn höfum það sem plagsið að skamma bankana, skamma það fólk sem stýrir þeim og situr í stjórn þeirra. Ég segi fyrir mig að ekki treysti ég mér til að taka betur þær ákvarðanir sem þeir taka frá degi til dags. Ég held að í því efni verðum við líka að gefa bönkunum vinnufrið. Þær áætlanir sem koma hér fram varðandi fyrirtæki, banka og fjármálamarkaði eru allar jákvæðar en fæst af því hefur ekki verið sagt áður. Þetta er fjórða skrefið.

Fimmta skrefið sem við þurfum síðan að taka og ákveða, og það er kannski það erfiðasta þegar fram líða stundir, er með hvaða hætti við ætlum að haga myntinni okkar í framtíðinni. Ég hef verið þeirrar skoðunar og hef ekkert legið á því að ég tel að einn af helstu ávinningunum við það að sækja um aðild og ganga í Evrópusambandið sé að taka upp evruna. Ég veit að margir eru annarrar skoðunar. Einn af lærdómum okkar síðustu árin er sá að það er mjög erfitt að halda úti sjálfstæðri örmynt í samfélagi sem vill vera alþjóðlegt og verður að vera alþjóðlegt vegna þess að Ísland lifir á því að geta flutt út afurðir sínar og flutt inn vörur.

Þetta eru þau fimm skref sem ég tel í stórum dráttum nauðsynlegt að taka.

Sú áætlun sem við eigum síðan að kynna fyrir umheiminum um framtíð okkar felst í því að sýna fram á það sem við getum gert úr auðlindum okkar. Við höfum sjávarútveginn og hann er þrátt fyrir allt, fyrir utan efnahagsreikninginn eins og hv. þingmaður sagði hér eins og hann væri tiltölulegt smáatriði, í góðu lagi. Fréttir úr hafinu eru þrátt fyrir allt góðar. Þorskstofninn er á hægri uppleið, annar tveggja í heiminum. Við erum að veiða nýja stofna sem hafa flutt sig inn í efnahagslögsöguna, makríl og líka nýja stofna sem við höfum ekki borið gæfu til að fara í áður, eins og ýmsar þær (Gripið fram í.) 50–60 tegunda sem eru partur af miðsævisteppinu sem einn ónafngreindur þingmaður sem núna er ráðherra hefur síðustu 15 árin flutt sjö sinnum þingsályktunartillögu um að eigi að ráðast í. (BJJ: Ert það þú?) Já.

Við höfum síðan (Gripið fram í: Það er Jón Bjarnason.) ferðaþjónustuna vegna þess að hin hliðin á þróun krónunnar er auðvitað sú að Ísland sem var eitt af dýrustu löndunum áður er a.m.k. í meðallagi hvað dýrleika varðar. Á meðan efnahagskreppan leikur heiminn grátt og ferðaþjónusta alls staðar er á niðurleið er hún á uppleið á Íslandi. Þarna eru gæði, þarna er auðlind sem við eigum að byggja upp eins og hægt er.

Ég nefni síðan þau ríflega 200 hátæknifyrirtæki, sprotafyrirtæki sem hér eru á Íslandi. Ekki þurfa mörg þeirra að ná þeim vexti sem nafni minn, Össur, og Marel og Actavis náðu til að hér verði á nokkrum árum, kannski áratug, til 10.000–15.000 störf í hátækniiðnaði sem eru vel launuð. Ég ætla svo ekki að þreyta hv. þingmann en kannski gleðja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson með því að við eigum leynivopn inn í framtíðina sem er olíulindir okkar. Ísland verður olíuþjóð. (Gripið fram í.)

Varðandi þær tillögur sem hér liggja fyrir og ég tala heldur vel um er ein tillaga sem er ný en hún er mjög hugvitsamleg. (TÞH: Þær eru fleiri.) Nei, það er ein tillaga hér sem maður hefur ekki séð áður. Hitt er samantekt á mörgum góðum hugmyndum sem margir menn í ýmsum góðum og misvondum flokkum hafa haft, (Gripið fram í.) en það er tillaga um kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna. Hún er hugvitsamleg. Í henni felst möguleiki til þess að afla ríkissjóði töluvert mikilla tekna núna án þess að skerða umsvif heimilanna. (KÞJ: Án þess að hækka skatta.) Það má gera það kannski líka. Þessa tillögu þarf að skoða mjög vel og mér líst vel á hana. Ég ímynda mér að hún njóti ekki mikils brautargengis hjá lífeyrissjóðunum miðað við það hvernig ég hef kynnst viðhorfum þeirra. (KÞJ: Hverjir eiga lífeyrissjóðina?)

Að öðru leyti segi ég að það er mikill samhljómur með þessari tillögu og mörgu því sem ríkisstjórnin er að gera sem mun koma fram hjá ríkisstjórninni á allra næstu dögum og vikum. (Gripið fram í.) Þegar menn eru t.d. að tala um það, sem er mjög jákvætt, að það þurfi að tryggja að ekki verði viðbótarhalli, hvorki á þessu ári né næstu árum, og það þurfi að vinna hann niður er það eitt af meginverkefnum ríkisstjórnarinnar. Það er það sem hún er að vinna að og það mun auðvitað skera úr um velferð hennar og Íslands hvort það tekst eða ekki. Þær hugmyndir sem hér eru líka varðandi húsnæðisskuldir eru allra góðra gjalda verðar. Við höfum séð þær líka í öðru formi hjá öðrum stjórnmálaflokki, Framsóknarflokknum. Við höfum líka hlustað á hæstv. forsætisráðherra lýsa því yfir fyrir nokkrum dögum að skoðaðar verði nýjar leiðir til að lækka höfuðstól þeirra skulda. (Gripið fram í: Heyr.) Það hefur komið alveg skýrt fram, finnst mér, hjá flutningsmanni þessarar tillögu að hann hefur ekki aðrar skoðanir að eðli til á því hvernig eigi að ráðast á þann vanda en t.d. ríkisstjórnin. Hann og Sjálfstæðisflokkurinn eru með ákveðnar hugmyndir um það hvernig eigi að teygja lánin, þ.e. lækka greiðslubyrði núna með því að setja aftan við höfuðstólinn þannig að menn borgi þetta síðar. Það eru þrjár eða fjórar slíkar leiðir nú þegar í gangi. Hv. þm. Bjarni Ben. á hrós skilið fyrir að viðurkenna það. Ég get svo alveg fallist á (Forseti hringir.) að við þurfum að finna aðferð sem er ekki eins niðurlægjandi og sú sem nú gildir (Forseti hringir.) um það hvernig eigi að lækka höfuðstól þeirra sem verður að lækka höfuðstólinn hjá, sem greiðsluúrræðin gagnast ekki. Það þurfum við að gera.