137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er að mörgu leyti búið að vera áhugavert að hlusta á talsmann meiri hlutans, hv. þm. Róbert Marshall, þegar hann gagnrýnir okkur sjálfstæðismenn fyrir að gagnrýna þetta frumvarp og talar um að talsmenn frelsisins vilji nú tala um banndagakerfið — þetta er þó í rauninni ekkert annað — og að við tölum um offjárfestingu sem það gæti leitt af sér á ákveðnum hluta greinarinnar, þegar við erum á sama tíma bara að ræða og endurspegla skoðanir hinna fjölmörgu umsagnaraðila sem komið hafa fram í ferli málsins.

Það var enn fróðlegra að upplifa í fyrsta skipti, alla vega fyrir mig sem þingmann sem starfar í nefndum þingsins, þau samskipti sem hv. þingmaður bendir á í þingræðu að eiga við umsagnaraðila. Hann talar um að það sé eins og fundir þingnefndanna séu haldnir fyrir tíma tölvupósts- og faxtækni.

Með öðrum orðum, það fari allt of mikill tími í að fá til okkar hagsmunaaðila sem kjósa að hitta þingmenn, sem kjósa að fá að ræða við þingnefndir í ferli mála og að koma skoðunum sínum á framfæri til þess að geta tekið þátt í gagnrýninni umræðu á þingnefndarfundum. Það kýs hv. þingmaður að fari í framtíðinni fram í formi tölvupóstsskeyta og faxsendinga. Það kom ítrekað fram á nefndarfundum, það vakti mikla athygli og er nýlunda. Ég frábið mér, virðulegi forseti, slík vinnubrögð.

Það er hlutverk þingnefndar að fjalla ítarlega um mál. Það er hlutverk þingnefnda að fá á sinn fund þá aðila sem þess óska. Og það er hlutverk formanna og forustumanna þingnefnda að boða til fundar þá aðila sem þingmenn í viðkomandi nefnd óska eftir að fá á fund nefndarinnar til að ræða þau mál sem þar liggja fyrir. Því var einnig hafnað í þessari málsmeðferð. Okkur var neitað um að fá Landhelgisgæslu Íslands á fund nefndarinnar til að ræða um þau öryggissjónarmið sem komið hafa fram í þessari umræðu varðandi smábátasjómennina af því það var ekki tími til þess hjá hv. nefndarmönnum meiri hlutans. Vorum við þó að ræða kannski það mikilvægasta sem fram hefur komið í þessu máli, þ.e. öryggismál sjómanna.

Ég vil bæta því við áður en ég held áfram að við vorum gagnrýnd fyrir það í minni hlutanum að vilja vinna að málinu á skjaldbökuhraða. Við urðum þó við ítrekuðum beiðnum formanns nefndarinnar um að halda aukafund í nefndinni. Nokkrir aukafundir voru haldnir og aldrei var mælt gegn því af hálfu okkar í minni hlutanum. Við vorum tilbúin til að leggja á okkur mikla aukavinnu til þess að reyna að hraða þessu máli en við vildum jafnframt reyna að gera það með sem bestum vinnubrögðum svo að sem flest sjónarmið kæmust til skila.

Verið er að ræða um mjög umdeilt frumvarp sem fjallar um strandveiðar, frístundaveiðar og fleiri þætti. Við höfum fengið alvarlegar athugasemdir frá flestöllum umsagnaraðilum þessa máls og í því felst engin pólitík. Vélstjórnar- og málmtæknimenn, Byggðastofnun, Samtök ferðaþjónustu, LÍÚ, Sjómannasambandið, Samtök fiskvinnslustöðva, Farmanna- og fiskimannasambandið, fjölmörg sveitarfélög, Samband íslenskra sveitarfélaga og smábátasjómenn hafa öll gert alvarlegar athugasemdir meira og minna við þetta frumvarp og hafa stórar áhyggjur af afleiðingunum.

Er þá eitthvað að því að gefa þessu máli þann tíma sem það þarf? Einhver sagði áðan, hv. þingmaður, að þetta væri sett fram til þess að hver Íslendingur gæti í framtíðinni róið til fiskjar og selt afla sinn eins og gert var í gamla daga.

Þessi hugmynd var sett fram af hálfu vinstri grænna í vinstri grænni rómantík nokkru fyrir kosningar og með því ætluðu vinstri grænir að slá sig til riddara. Það er í rauninni ekkert annað en lýðskrum vegna þess að málið var algjörlega óathugað og óútfært. Síðan hafa hv. þingmenn Samfylkingarinnar komist í málið og ekki hefur það nú lagast við það.

Það getur í sjálfu sér hver Íslendingur róið til fiskjar. Til þess að hver Íslendingur geti róið til fiskjar í því fiskveiðistjórnarkerfi sem við störfum eftir þarf hann einfaldlega að hafa aðgang að bát og kaupa sér veiðiheimildir. Það sem gerst hefur í þessu tilfelli er að verðmæti smábáta hefur farið upp úr öllu valdi. Smákænur sem hafa jafnvel ekki farið á sjó í langan tíma, bátar sem höfðu ekki hátt verðgildi, hafa jafnvel margfaldast í verði.

Er það til að greiða fyrir nýliðun í greininni eins og eitt af markmiðum frumvarpsins er sagt vera? Er það valið til þess? Nei, virðulegi forseti. Það hefði verið miklu nær að þeir aðilar sem þurfa í dag að kaupa sér báta sem hafa margfaldast í verði hefðu bara getað keypt sér ódýrari báta og keypt sér aflaheimildir fyrir mismuninn, róið til fiskjar, gert upp í heimabyggð, náð sér í byggðakvóta og þannig farið þá leið sem nýliðarnir fara en er í raun verið að stúta með þessu frumvarpi.

Hraðinn er mikill. Umsagnaraðilum er gefinn mjög lítill tími og við þingmenn minni hlutans erum vændir um að vilja vinna á skjaldbökuhraða. Þetta er dæmi um forgangsröðun hjá þessari hæstv. ríkisstjórn og hjá þessum vinstri flokkum. Það á að vinna svona umdeild mál á miklum hraða í gegnum þingið á meðan allur fagurgalinn um skjaldborg heimilanna, lausnir á vandamálum fyrirtækjanna, lausnir á vandamálum heimilanna í landinu, liggur á milli hluta eins og komið var inn á við setningu þessa þingfundar í dag.

Verið er að taka mikið af eldri bátum í notkun út af þessu frumvarpi og það er einn af þeim neikvæðu þáttum sem eru í þarna að menn hafa áhyggjur af því hvernig meðferð á afla verði vegna þess að aðstöðuleysi er mikið í þessum bátum. Verið er að breyta skemmtibátum í fiskveiðibáta og það er engin aðstaða til þess að vinna sómasamlega úr þeim afla sem fæst.

Við erum þess vegna líka að búa til kerfi sem leiða má líkur að því að rýri aflaverðmæti sem kemur að landi. Það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda núna í þeim bágindum sem eru hjá þessari þjóð þegar við þurfum í rauninni að hámarka verðmæti alls þess sem kemur að landi.

Um það eru engar reglur settar í frumvarpinu. Ekki er heldur talað um að það eru margir nú þegar í kvótakerfinu sem hugsa sér jafnvel að geyma fiskveiðiheimildir til næsta fiskveiðiárs. Þeir sem eru jafnvel með línubáta og báta í núverandi kerfi fara yfir í þetta kerfi og hafa þar með mikið forskot á þá sem koma nýir inn. Við skulum átta okkur á því að þessar svokölluðu frjálsu veiðar eru frjálsar bara upp að ákveðnu aflamarki. Þegar því er náð er þessum veiðum lokið og samkeppnisstaða manna verður mjög mismunandi.

En margir þeirra sem velja þessa leið með allar tilheyrandi fjárfestingar gera það í trausti þess að ekki sé bara tjaldað til einnar nætur. Þannig talaði fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, núverandi fjármálaráðherra, og gaf góðar vonir um að þetta yrði til frambúðar. Nú tala þessir sömu aðilar, vinstri flokkarnir hér á þingi, um að þetta sé tilraunaverkefni og að framtíðin sé alls óráðin.

Mikið var rætt um það í nefndinni að öryggismálin væru sá þáttur sem yrði að skoða alveg sérstaklega. Það kemur ekki síst til af því að menn hafa áhyggjur af því að dregnir verði fram bátar sem langt er síðan hafa farið á sjó og eru jafnvel gamlir. Það kom fram í nefndinni af hálfu Siglingastofnunar að það er mikið af óreyndum skipstjórnarmönnum sem hafa sótt réttindi sín og ætla sér að fara að stunda þessar veiðar. Það eru engar skyldur gerðar til þessara manna um að sækja öryggisnámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna og það er ekkert eftirlit með því hvort þeir hafi farið á slík öryggisnámskeið.

Við höfum á undanförnum árum náð undraverðum árangri í öryggismálum sjómanna svo eftir er tekið. Íslendingar standa sennilega einna fremstir þjóða þegar kemur að því að fækka slysum á sjó og alveg sérstaklega banaslysum. Það er skýlaus krafa okkar sem um þau mál höfum fjallað að ekki verði slakað á klónni á þessum vettvangi.

Eftir fund með nefndinni breytti Siglingastofnun vinnureglum sínum varðandi haffærisskírteini fyrir þessa báta. Verið var að gefa þeim undanþágu frá því að setja fjareftirlitsbúnað um borð í skipin og undanþágan gildir í einn til þrjá mánuði, hún gildir sem sagt í sumar. Það lá því fyrir að fjöldi báta fór á sjó án þess að vera búinn fjareftirlitsbúnaði. Þeir bátar sem fá haffærisskírteini í dag þurfa að uppfylla þessar kröfur, það er orðið skilyrt, en búið var að gefa út fjölda haffærisskírteina með undanþágu. Það mun kalla á mikla vinnu þeirra sem við þessi eftirlitsstörf starfa og hefur mikinn kostnað í för með sér eða getur haft það og er auðvitað eitt af þeim atriðum sem renna hér í gegn vegna þess hversu illa málið er unnið og undirbúið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Það er margt annað sem mun rýra öryggi þeirra sem þessa sjómennsku stunda. Það eru t.d. tímamörkin á sólarhringsvaktinni, að það megi vera tólf tíma á sjó og dagbann á föstudögum og laugardögum. Það kallar á að róið verður við erfiðar aðstæður. Þetta eru veiðimenn sem ætla að fara út og í stað þess að bíða eftir betri aðstæðum er farið á sjó til þess að uppfylla þau tímamörk og þær reglur sem sett eru í kringum þetta.

Ég tala nú ekki um forskot þeirra sem eru með hraðfiskibátana og komast hratt á miðin á kostnað þeirra sem eru kannski nýliðar í þessu með hæggengari, eldri báta sem þeir hafa keypt til að geta róið til fiskjar. Þeir eru í mjög skertri samkeppnisstöðu gagnvart þessum aðilum. Það er allt saman út af því hversu vanunnið þetta frumvarp er, öll þessi atriði.

Það sama á við um eftirlitshlutann. Okkur var neitað um að fá á fund nefndarinnar fulltrúa Landhelgisgæslunnar til að leita eftir sjónarmiðum þeirra varðandi öryggismál sjómanna. Það sama á við um eftirlitshlutann. Hann hefur lítið verið skoðaður, eins og fram kom hjá fulltrúum Fiskistofu, og þeir eru í raun í algjörri óvissu með það hvað þetta muni þýða. Þeir sögðu að það færi auðvitað eftir því hversu margir færu að stunda þessar veiðar. Þar munum við sjá fram á mikinn aukinn kostnað við starfsmannahald og það eftirlit sem þarf að vera í kringum þetta vegna þess að vissulega er þessum málum þannig fyrir komið að mjög auðvelt verður að brjóta þær reglur sem hér eru settar er vilji er til þess.

Þetta hefur áhrif á fyrirtæki í ferðaþjónustu, á þá sem stunda frístundaveiðarnar á Vestfjörðum og eru að byggja þar upp öfluga ferðaþjónustu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum eru þeir aðilar að skoða það í fullri alvöru að gera báta sína frekar út á þetta en að stunda ferðaþjónustu. Í þeim málaflokki var reyndar búið að ná ákveðinni sátt á vorþingi sem ekki var litið til nú.

En alvarlegasta málið í þessu eru áhrifin á veikari byggðir landsins, áhrif á þær byggðir sem byggja grunnafkomu sína á byggðakvótanum. Ekki hefur verið sátt um byggðakvótann í gegnum árin en vissulega er úthlutun byggðakvótans komin í þann farveg núna undanfarið ár, getum við sagt, að sáttin hefur aukist og menn hafa verið að leika eftir ákveðnum reglum sem nú er verið að breyta í miðjum leik. Byggðakvótinn byggist á því að smábátar sem hann hafa fengið, þær útgerðir sem hann fá, landa í heimabyggð til vinnslu í sinni heimabyggð til þess að efla atvinnuvegi í þar. Þeir þurfa að landa tvöföldum þeim afla sem þeir fá byggðakvóta út á þannig að þar er kominn ákveðinn grunnur undir fiskvinnslu á þessum stöðum. Nú á að hirða helminginn af byggðakvótanum og setja hann á sumarveiðar þegar hráefnið er verra, þegar vinnslurnar eru ekki allar starfandi og það er ekki skilyrði að menn landi í heimabyggð.

Byggðakvótinn hefur verið leið nýliðanna inn í greinina en það er verið að rýra hana ef ekki eyðileggja með þessu. Á fund nefndarinnar komu fulltrúar byggðarlaga sem hafa af þessu verulega miklar áhyggjur og segja hreinlega að fari byggðakvótinn frá þessum svæðum eða rýrni mikið fari grunnurinn undan fiskvinnslu þar. Þarna er um að ræða veikustu byggðirnar. Þetta frumvarp vinstri flokkanna vinnur því alveg gegn því sem lagt er upp með að gerist, gegn þeim markmiðum sem það á að ná.

Það er t.d. lengdin á miðin. Það er mjög mismunandi hversu langt er á miðin frá þessum bæjum og menn munu auðvitað fara á þá staði þar sem styst er á miðin út af tólf tíma reglunni. Þannig færi mikið af þessum afla frá veikari byggðum til sterkari byggða.

Hraðinn í þessu máli virðist vera það sem er númer eitt, tvö og þrjú. Gæðin skipta miklu minna máli. Vinnubrögðin eru forkastanleg og mjög óvenjuleg. Það er ákaflega sérstakt að þrátt fyrir ítrekaða aukafundi sem við í minni hlutanum vorum tilbúin til að taka þátt í til þess að greiða fyrir málinu er okkur neitað um umsagnaraðila og við vænd um að vilja vinna á skjaldbökuhraða. Það lá við að það ætti að segja við þá aðila sem óskuðu eftir að koma á fund nefndarinnar: Sendið bara tölvupóst eða skeyti. Við getum lesið frá ykkur það sem þið viljið koma á framfæri.

Þetta er alveg óháð því, virðulegi forseti (Forseti hringir.) að það geti verið full ástæða til þess að endurskoða einhverja þætti fiskveiðistjórnarkerfisins. Í þá vinnu (Forseti hringir.) erum við sjálfstæðismenn tilbúnir að fara en hér verður skynsemin að ráða för.