137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fer hv. þingmaður hreinlega með rangt mál. (Gripið fram í: Nei.) Ég óska eftir því að hv. þingmenn sem koma með fyrirspurnir við ræðu mína nefni þá umsagnaraðila sem þeim þykir eftir á að hyggja að hafi ekki átt erindi á fundi nefndarinnar. Ég bið þá að nefna þá. Ég fullyrði að hverjum og einum sem kom fyrir nefndina þótti þeir eiga erindi og við alla þeirra áttum við umræður og að sjálfsögðu þurftum við sjálfstæðismenn að hafa einhverja forsögu að okkar málum. Ég hafna því að við höfum verið að gera þetta til að tefja fyrir málinu þegar við á sama tíma vorum tilbúin til að halda fundi á hverjum þeim tíma sem hv. formaður nefndarinnar óskaði eftir. Málið er einfaldlega ekki svona vaxið. Við vorum tilbúin til að taka þátt í fundum en við vildum fá á fundi nefndarinnar þá aðila sem við töldum mikilvægt að hitta og ræða við og fá fram skoðanir og það er grundvallaratriði í öllu nefndarstarfi á þingi. Þar er vettvangurinn til að leita sjónarmiðanna í samfélaginu. Þar er vettvangurinn til að breyta málum. Það er hinn lýðræðislegi vettvangur fyrir almenning til að eiga samskipti við þingmenn og geta komið fram með sjónarmið sín og skoðanir þannig að við hv. þingmenn tökum tillit til þeirra og komum því inn í það frumvarp sem er til umræðu.

Varðandi það hvort við sjálfstæðismenn erum algerlega mótfallnir strandveiðum þá hef ég sagt það ítrekað í þessari umræðu að við sjálfstæðismenn erum tilbúnir í málefnalega vinnu við að endurskoða ákveðna þætti fiskveiðistjórnarkerfisins okkar. Ég er tilbúinn í þá vinnu, það hef ég ítrekað sagt. Það eru á því vankantar sem þarf að sníða af. En við skulum ekki gleyma því (Forseti hringir.) hverju þetta fiskveiðistjórnarkerfi hefur skilað okkur og byltingarkenndar hugmyndir eins og þær sem komið hafa fram hjá vinstri stjórn landsins eru til þess fallnar (Forseti hringir.) að vekja miklar áhyggjur um allt land.