137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

Icesave-samningar og ríkisábyrgð.

[14:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ágætisumræða um Icesave-samningana. Ég get tekið undir allar þær spurningar sem hér hafa komið fram en því miður ekki fengist nægilega skýr svör við. Þetta mál verður sífellt undarlegra og því miður einkennist það allt af hálfsannleik, leynd og blekkingum. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að við þingmenn höfum ekki enn þá fengið afrit af þessum samningum sem átti að hvíla svo mikil leynd yfir sem reyndist svo ekki fótur fyrir.

Nú hefur komið í ljós að þetta er í rauninni ekki alþjóðasamningur eins og ríki gera sín á milli heldur ber þessi samningur, miðað við fréttaflutning, öll einkenni lánasamnings þar sem annar aðilinn fer á hnjánum til lánardrottins og gengst undir þá skilmála sem hann setur. Og það skýrir af hverju breskir dómstólar eiga að leysa úr ágreiningi en ekki gerðardómar eða Alþjóðadómstóllinn í Haag sem er annars venjan í alþjóðasamningum.

Hæstv. forsætisráðherra hélt því fram hér áðan að ekki væri verið að setja eignir þjóðarinnar að veði. Ég vildi bara fá skýr svör við spurningunni: Á hverju ætlar meiri hluti stjórnarinnar að veita ríkisábyrgð? Ég get ekki betur séð en að við séum að veðsetja eigur þjóðarinnar, þar á meðal gjaldeyrisvarasjóðinn sem er í rauninni blóð íslenska hagkerfisins.

Ég mundi vilja fá skýr svör: Hvaða eignir er verið að veðsetja? Fyrir hvaða eignum er væntanlega meiri hluti Alþingis, nema vinstri grænir fylgi sinni fyrri (Forseti hringir.) sannfæringu, að veita ríkisábyrgð?