137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:27]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér auðvitað fyllilega grein fyrir því að það er stundum viðkvæmt fyrir suma að rifja upp fortíðina en stundum gefa þeir nú sjálfir sem eru að tala um að það eigi ekki að tala um fortíðina heldur um framtíðina, bara tilefni til þess að hún sé rifjuð upp. Það er auðvitað full ástæða til þess að gera það ekki síst varðandi það stóra mál sem var einkavæðing bankanna og hvernig að því var staðið og hvernig þingið var leynt ýmsum upplýsingum sem þarf að vera að kalla eftir. Það er bara nauðsynlegt að halda því til haga.

Varðandi Icesave-samninginn sem hv. þingmaður nefndi þá þykir mér það mjög miður að þetta hafi farið í fjölmiðlana með þessum hætti áður en þingmenn fengu tækifæri til þess að sjá þennan samning. Ríkisstjórnin hafði reynt að gera sínar ráðstafanir til þess að létta því af að það væri hægt að sýna þennan samning. En með einhverjum hætti barst þetta til fjölmiðla á meðan við vorum að bíða eftir svörum frá Hollendingum og Englendingum um það að létta því af að ekki mætti sýna þennan samning. Ég er alveg sammála því að það hefur auðvitað ekki verið hægt að bjóða þinginu upp á það að fara að afgreiða hér Icesave-ríkisábyrgðina án þess að sjá þennan samning. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það.

En menn verða stundum að þola það að fortíðin sé stöku sinnum rifjuð upp hér í ræðustól. Það væri þá mikil breyting á þingstörfum ef menn teldu að það væri alveg óhæfa að gera það.