137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

heilbrigðisstarfsmenn.

113. mál
[23:39]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek til máls eingöngu til þess að fagna því að fram skuli komið frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn og þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera hér grein fyrir innihaldi frumvarpsins, en eins og hæstv. ráðherra nefndi þá hefur þessi lagasmíð verið lengi í undirbúningi.

Það er löngu tímabært að fara vel yfir lög og reglugerðir um heilbrigðisstéttir því að eins og fram hefur komið hafa í dag 32 heilbrigðisstéttir löggildingu og þar af eru um fjórtán heilbrigðisstéttir til sérstök lög. Ör þróun er innan heilbrigðisþjónustunnar og stöðugt koma fram ný svið. Starfsvettvangur heilbrigðisstarfsmanna hefur breyst, sjálfstæði þeirra hefur aukist með aukinni menntun og starfsumhverfið er líka stöðugt að breytast. Því er eðlilegt að skoða og fara vel yfir hvort heildarlöggjöf um alla heilbrigðisstarfsmenn sé ekki tímabær og að það fari þá frekar inn í reglugerð og reglugerðarverk, þ.e. starfssvið ákveðinna stétta ef farið er út fyrir það, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir.

Á undirbúningstímanum hafa frumvarpsdrögin verið send þrisvar sinnum til umsagnar, nú síðast í haust og frumvarpið, eins og það lítur nú út, er samið með tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafa komið. Þó er svo trúlega ekki að öllu leyti því að geta má sér þess til að einhverjar starfsstéttir sem hafa haft sérstök lög um sín starfsréttindi vilji standa vörð akkúrat um þau réttindi og vilji þá sjá hvernig þau réttindi séu best tryggð og að þeirra starfssvið sé áfram jafn vel tryggt og það er nú.

Ég tel ekki að þetta frumvarp sé hápólitískt. Þetta er miklu frekar frumvarp sem snertir margar stéttir. Þar af leiðandi er mikilvægt að vanda undirbúninginn hér á hinu háa Alþingi eins og ég tel að hafi verið gert af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég fagna því að fá þetta frumvarp nú svo hægt sé að gefa því tíma í hv. heilbrigðisnefnd, senda það til umsagnar, fá til nefndarinnar þá sem nefndin telur að þurfi og eigi að koma fyrir nefndina til þess að gefa álit sitt á frumvarpinu og hugsanlegum afleiðingum þess að breyta þessari lagaumgjörð. Ég vona að hv. heilbrigðisnefnd takist að ljúka þessari vinnu á þessu þingi sem þýðir að það yrði þá fyrir — okkur ætti vonandi að takast að ljúka því fyrir 1. október næstkomandi, sem sé fyrir nýtt þing.

Ég ætla ekki að fara í einstakar greinar. Fyrst og fremst er verið að líta til þess núna að breyting á starfssviði viðkomandi heilbrigðisstétta þjóni sjúklingunum sem best, að þjónustan sé út frá sjúklingunum eða réttara sagt að löggjöfin sé sniðin að þörfum sjúklinganna og að kostnaði við þjónustuna sé haldið í lágmarki.