137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[11:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Það er að vísu Helgi Ú. Hjörvar, virðulegi forseti.

Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hlý orð og gott samstarf í efnahags- og skattanefnd um þetta áður mjög svo umdeilda mál, eignaumsýslufélag ríkisins, en það má fyrst og fremst rekja til þeirrar rúmu heimildar sem hæstv. fjármálaráðherra gaf nefndinni við 1. umr. til að fjalla efnislega um málið og gera á því breytingar. Í raun má segja að það sé aftur fært nær því sem var þegar hæstv. fjármálaráðherra flutti það fyrst og þó einkum til þeirra hugmynda sem Mats Josefsson, sá sérfræðingur sem best þekkir til við endurreisn atvinnulífs og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, lagði til við ríkisstjórnina að væri einn mikilvægasti þátturinn í því endurreisnarstarfi sem fram undan er. Það mun auðvitað ráða miklu um velferð okkar á komandi tíð og fer vel á því að það sé mál nr. 1 á Alþingi og mál nr. 1 (Forseti hringir.) á þessu kjörtímabili.