137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er aldeilis ekki svo að það hafi ekki verið talað um það fyrir kosningar að grípa þyrfti til aðgerða í ríkisfjármálum. Það var þá helst Sjálfstæðisflokkurinn sem reyndi að telja þjóðinni trú um að þess þyrfti ekki.

Hvað var ég sakaður um fyrir kosningar, ekki síst af sjálfstæðismönnum? Að ég ætlaði að hækka skatta, að ég ætlaði að lækka laun. Var það ekki? (Gripið fram í.) Var það ekki nákvæmlega þannig — (Gripið fram í.) ef hv. þingmenn geta aðeins haft hljóð …

(Forseti (ÞBack): Hljóð í salnum.)

… að ég sagði að það væri æskilegast að grípa til aðgerða strax á miðju ári 2009 þó að það væru ekki gerðar kröfur um það samkvæmt samstarfsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? (Gripið fram í.) Varðandi tryggingagjaldið er auðvitað ljóst að það gerir enginn að gamni sínu að leggja álögur á atvinnulífið um þessar mundir. Þetta er mjög breiður skattstofn. (GÞÞ: Hefur það verið metið?)

(Forseti (ÞBack): Hljóð í salnum.)

Það hefur að sjálfsögðu verið skoðað og brotið niður á atvinnugreinar hverjir bera þessa skatta. Það er ekki hægt að gefa svar við þessari spurningu, það veit hv. þingmaður mjög vel, en þetta er þó það (Gripið fram í.) fyrst og fremst sem beinist að atvinnulífinu. Að öðru leyti eru það launamenn og einstaklingar sem axla byrðarnar. Væntanlega hafa menn skilning á því að (Forseti hringir.) atvinnulífið leggi einnig eitthvað af mörkum.