137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[15:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Sem betur fer er staða lífeyrissjóðanna áfram mjög sterk þrátt fyrir mjög slaka ávöxtun þeirra á síðasta ári. Íslenska lífeyrissjóðakerfið byggist eins og alkunnugt er upp á sjóðasöfnun en er ekki gegnumstreymiskerfi eins og mörg nágrannalönd okkar sitja uppi með og horfa flest til okkar og annarra landa sem hafa byggt upp söfnunarsjóði til eftirbreytni. Það er enginn minnsti vafi á því í mínum huga, þó að gefið hafi á bátinn hjá lífeyrissjóðunum og misjafnlega sé um þá talað og stundum með réttu, að það er ein mesta gæfa okkar Íslendinga að hafa ratað inn á það spor sem við gerðum þegar við hófum uppsöfnun lífeyrisréttinda um 1970. Lífeyrissjóðir eru langtímafjárfestar og þess vegna hefur sem betur fer slök ávöxtun eins árs eða stutts tímabils takmörkuð áhrif svo fremi sem ávöxtun þeirra til langs tíma litið sé viðunandi. Aðalatriðið er auðvitað það að kerfið í heild sinni hafi getu til að ráða við lífeyrisskuldbindingar framtíðarinnar.

Í lok árs 2008 voru heildareignir lífeyrissjóðanna metnar tæpir 1.650 milljarðar eins og réttilega kom fram hjá hv. málshefjanda og sé litið til þess og þrátt fyrir það mikla högg sem nú hefur komið á lífeyrissjóðina að undanförnu eru þetta rúmlega 10% meiri eignir en þær voru í árslok 2006. Heildareignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins eru eitt hæsta hlutfall, ef ekki beinlínis það hæsta, sem þekkist í heiminum samkvæmt heimildum OECD. Það er talið að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna verði nálægt 120 milljörðum kr. á næsta ári og er þá gert ráð fyrir sæmilega hagstæðu uppgjöri á gjaldmiðlaskiptasamningum þeirra við bankana. Að vísu sýna síðan áætlanir að ráðstöfunarfé þeirra muni lækka nokkuð á næstu árum, m.a. vegna hrunsins og þess að þessar greiðslur af skuldabréfum til íslenskra fyrirtækja skila sér ekki eða með lakari hætti en ráð var fyrir gert, þannig að gera má ráð fyrir því að þetta ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna fari niður í eða niður fyrir 100 milljarða á árunum 2013–2014. Þrátt fyrir þetta er engin ástæða til að örvænta yfir stöðu lífeyrissjóðanna. Þeir standa tiltölulega sterkt og hafa staðið þennan storm jafn vel eða betur af sér en sambærilegir sjóðir víðast hvar um heiminn. Jafnvel norski olíusjóðurinn getur ekki státað af betri útkomu en íslensku lífeyrissjóðirnir á undanförnum missirum.

Aðalatriðið er að lífeyrissjóðirnir geti staðið við skuldbindingar sínar til lengri tíma litið nokkurn veginn eins og að þeim hefur verið stefnt og haldið áfram að vera styrkar stoðir fyrir fjármögnun ríkis, sveitarfélaga og þátttakendur í uppbyggingu efnahags- og atvinnulífs. Í ljósi þess sem ég hef sagt liggur fyrir að íslenska lífeyrissjóðakerfið mun á næstu árum hafa áframhaldandi og umtalsvert bolmagn til að taka þátt í uppbyggingu efnahagslífsins. Það munar um minna en 100 milljarða ráðstöfunarfé á hverju ári.

Vegna þess að séreignarsparnaðurinn hefur verið áhugaefni á þingi má geta þess í framhjáhlaupi að nú liggur fyrir að um 28.000 manns hafa sótt um að fá greiddan út séreignarsparnað upp að allt að 1 millj. kr., samtals um 17 milljarða kr. Áætlaður tekjuskattur af þeirri fjárhæð er um 4 milljarðar og útsvar um 2,2 milljarðar. Í árslok 2008 var séreignarsparnaðarhlutinn áætlaður um 300 milljarðar kr.

Þá að spurningum hv. þingmanns. Hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn farið fram á að þjóðnýta íslensku lífeyrissjóðina? Nei, ekki er mér kunnugt um það, ég hef aldrei heyrt það nefnt. Það hefur aldrei borið á góma í mínum samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ég hef hvergi séð stafkrók um slíkt í neinum plöggum sem tengst hafa samskiptum við hann. Ég held að algerlega ástæðulaust sé að hafa af því áhyggjur. Þvert á móti býður mér í grun að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn meti einmitt styrk íslenska lífeyrissjóðakerfisins og sérstaklega vænt tekjustreymi ríkis og sveitarfélaga með vaxandi útgreiðslum séreignarsparnaðar á komandi árum sem eina okkar styrkustu stoð til að ráða við efnahagsáfallið og skuldirnar sem nú lenda á ríkissjóði og sveitarfélögum.

Telur ráðherra rétt að lífeyrissjóðir geri gjaldmiðlaskiptasamninga? Ég hef ekki mikla skoðun á því. Sjálfsagt hafa einhverjir þeirra farið ógætilega í þeim efnum, eins og fjöldamargir fleiri aðilar. En þetta var tíska þess tíma, allir töldu sig þurfa að gera slíka samninga til að lágmarka gjaldeyrisáhættu sína og sitja nú uppi með það.

Verður staða lífeyrissjóðanna og endanlegt uppgjör ljóst þegar bankarnir hafa verið fjármagnaðir upp úr miðjum júlí? Nú er það svo að lífeyrissjóðirnir eiga fyrst og fremst kröfur á gömlu bankana og það sem út úr því kemur tekur lengri tíma að skýrast. Sömuleiðis eignir þeirra í mörgum fyrirtækjum sem lent hafa í erfiðleikum þannig að ég er ekki viss um að sá atburður sem slíkur breyti miklu um það (Forseti hringir.) og skýri endanlega stöðu lífeyrissjóðanna en að lokum minni ég bara á að þeir sæta mjög ströngu aðhaldi og eftirliti um fjármál sín eins og menn hafa orðið varir við undanfarna daga þannig að ég held að menn geti treyst því bæði hvað varðar endurskoðun og tryggingafræðilega úttekt á stöðu þeirra að þeir eru undir mjög stífar reglur settir.