137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[15:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hlusta á varnarræðu hæstv. heilbrigðisráðherra og fyrrverandi formanns stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (Gripið fram í.) og það var ekki laust við að maður greindi ákveðið samviskubit sem kom fram í orðum hans. Hann hefur stýrt þeim lífeyrissjóði og sá lífeyrissjóður hefur eins og aðrir sjóðir orðið fyrir umtalsverðum skakkaföllum sem gerir það náttúrlega að verkum að allur sá málflutningur Vinstri grænna að þeir hafi vitað þetta allt saman gerir, ef svo var, ábyrgð þeirra meiri en nokkurra annarra vegna þess að þeir voru þá að fjárfesta þar sem þeir höfðu völd til sem eru ekki lítil í þessum stærsta lífeyrissjóði landsins, þvert gegn betri vitund.

Virðulegi forseti. Ég er hins vegar sammála því að lífeyrissjóðakerfið í grunninn er gott, ég held að það sé skynsamlegt að hafa sjóðakerfi en það er ekki hafið yfir gagnrýni. Það er ekkert að því að fara vel yfir það og svo sannarlega er algjörlega fráleitt að ráðast hér á hv. þm. Pétur H. Blöndal og gera hann tortryggilegan af því að hann vill skoða það hvernig valið er í stjórnir lífeyrissjóðanna. Það er algjörlega fráleitt og það er svo sannarlega eitthvað sem má skoða. Við megum vera opin fyrir því að ræða þetta með opnum og lýðræðislegum hætti, orð sem margir nota oft, jafnvel þó að það komi við kaunin á einhverjum miklum valdamönnum eins og hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er einn valdamesti maður þjóðfélagsins og er enn þá formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Virðulegi forseti. Við skulum hins vegar fara varlega í að breyta því sem er gott, við skulum ekki taka neinar kollsteypur. Sem betur fer eigum við þessa lífeyrissjóði. Það er örugglega margt sem betur mátti fara, við hefðum kannski eftir á að hyggja viljað dreifa eggjunum meira en við gerðum, t.d. að leggja meiri áherslu á erlendar eignir, stóru lífeyrissjóðirnir hér á landi. (Forseti hringir.) Við breytum því ekki núna, nú skiptir máli (Forseti hringir.) að þeir nýtist vel í því hlutverki sem þeir eiga að nýtast og (Forseti hringir.) m.a. að endurreisninni. (Heilbrrh.: Frábær ræða.)