137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[16:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem ég sagði varðandi fjármögnun nýju bankanna, það eitt og sér mun ekki þýða að öll önnur mál sem lífeyrissjóðina varða og tengjast útkomu þeirra sem t.d. kröfuhafa í gömlu bankana, uppgjör gjaldmiðlaskiptasamninganna og fleiri þættir sem tengjast eignum þeirra í fyrirtækjum eða skuldabréfum (Gripið fram í.) fyrirtækja, skýrist sjálfkrafa í leiðinni. Það er ekki endilega svo þó að einum óvissuþættinum sé að sjálfsögðu eytt, þ.e. uppgjörinu milli gömlu og nýju bankanna.

Það er eðlilegt að hér sé rætt um mögulega aðkomu lífeyrissjóðanna að framkvæmdum eða uppbyggingu í atvinnulífi okkar. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að leggja á það áherslu að það stendur ekkert annað til en að þær fjárfestingar lífeyrissjóðanna verði tryggar enda ekki annað í boði lögum samkvæmt. Að sjálfsögðu þurfa þetta að vera samningar og verkefni sem eru þannig úr garði gerð að fjárfestingin sé trygg og ávöxtunin eðlileg eins og lög mæla fyrir um að allar ákvarðanir lífeyrissjóðanna gangi. En það er auðvitað mjög eðlilegt að horft sé til styrks lífeyrissjóðanna í þessum efnum og ekki síður sem fjármögnunaraðila í þágu reksturs samfélagsins og velferðarþjónustunnar, framkvæmda hjá ríki og sveitarfélögum o.s.frv. við þessar aðstæður, því að þegar upp er staðið er þetta við sjálf og þetta er okkar lífeyrir. Ég mótmæli því þegar hv. þingmaður talar þannig að maður sé að tala fyrir hönd einhvers ópersónulegs fyrirbæris en ekki fólksins í landinu þegar maður ræðir um hagsmuni lífeyrissjóðanna. Það er nákvæmlega það sem maður er að gera því að þetta er lífeyririnn okkar og komandi kynslóða.

Ég endurtek að ég er sannfærður um að þetta á eftir að reynast Íslandi einhver mesta gæfan á komandi árum, hvernig sem menn tala um lífeyrissjóði í augnablikinu. Lífeyrissjóðirnir sjálfir eiga gríðarlega mikið undir því að íslenskt efnahagslíf komist á fæturna og að greiðslur til þeirra haldi áfram í gegnum (Forseti hringir.) kraftmikið atvinnulíf og launatekjur í landinu. Þeir eru nákvæmlega í þessum sama (Forseti hringir.) bát og við öll. Þess vegna treysti ég því að það muni ekki standa á vilja þeirra og áhuga á að leggja sitt af mörkum.