137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem upp í andsvar án þess að ætla að andmæla einhverju sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir vék að í ræðu sinni. Ég held að allar athugasemdir hennar séu vel íhugunar virði, bæði hvað varðar málsmeðferð í þinginu og eins varðandi efnisatriði málsins. Það hlýtur að koma til skoðunar í hv. viðskiptanefnd hvort eignaumsýslufélag eða slíkt fyrirkomulag sé hentugra en ríkisstofnun til að sinna þessu hlutverki. Það eru auðvitað athyglisverðar upplýsingar, sem hv. þingmaður kemur fram með, sem ég hafði ekki áttað mig á, að tillögur Mats Josefssons — sem oft er vitnað til í sölum þingsins, eins og orð hans séu heilög, leyfi ég mér að segja — hafi gengið út á það að um þetta yrði stofnað opinbert hlutafélag en ekki ríkisstofnun. Mér finnst mjög athyglisvert að það komi inn í þessa umræðu.

Ég fagna því að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skuli hafa vakið athygli á þessum þáttum og vona að þau sjónarmið sem hún hefur boðað eigi stuðning, t.d. í hennar þingflokki. Ég held að þetta frumvarp eins og það er þurfi að taka verulegum breytingum áður en það nær fram að ganga. Ég mun koma nánar að því í ræðu síðar í umræðunni.