137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[18:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða gleður mig mjög mikið. Ég fagna því að hv. þm. Birgir Ármannsson vill læra af reynslunni og ekki endurtaka ósköpin frá 2002. Það var ekki endilega þannig að það væri langur og yfirvegaður aðdragandi að ýmsu sem þá var gert. Það var t.d. þannig að menn sneru við nánast á örfáum vikum og kannski mánuðum eiginlega öllu sem þeir höfðu áður sagt, t.d. um mikilvægi þess að selja bankana í dreifðri eignaraðild. Fundu upp hugtakið kjölfestufjárfestir eða -eigandi til þess að réttlæta það að afhenda meiri hluta eða ráðandi hlut í bönkunum til tiltekinna aðila.

Það er auðvitað dapurlegt en það er staðreynd engu að síður að bankar sem ríkið átti og voru í ágætum rekstri voru seldir á fáeina tugi milljarða — fáeina, helmingshlutur í þeim tveimur á einhverja 20, 30 milljarða — þeir eru að kosta okkur núna hundruð og aftur hundruð milljarða. Það er allt sem við höfðum upp úr krafsinu, það er veruleikinn. Og ekki bara það, heldur höfðu menn einkavætt alla fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna árin á undan. Það kom ekki mikið fyrir þá, þeir fóru nokkurn veginn á eigin fé sínu yfir í hendur annarra aðila. Hvað gerðist með bankahruninu í október í haust? Það þurrkaðist út hver einasta króna sem byggst hafði upp á áratugum í fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna, í Fiskveiðasjóði, í Iðnlánasjóði, í Iðnþróunarsjóði og í Stofnlánadeild landbúnaðarins og síðar Lánasjóði landbúnaðarins. Af þessu má ýmislegt læra, að það er dýrt að gera mistök eins og gerð voru 2002.