137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:49]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki sé ég það fyrir mér að með því að koma upp fleiri álverum drögum við úr mengun, enda getum við ekki stillt þessu einu upp á móti öðru.

Vissulega er það svo að ferðaþjónustan, þ.e. bílaumferðin, mengar. Ef við ætlum að byggja á ferðaþjónustu til framtíðar sem við höfum mikla möguleika til að gera, bæði sumar- og vetrarþjónustu, verðum við að fara að huga betur að því að skattleggja farartækin, bifreiðarnar, auka hlutfall rafmagnsbíla og annarra farartækja sem ekki nota jarðolíu og almenningssamgöngur og efla miklu meira þjónustu í kringum ferðamenn í rútum.

Varðandi útflutning á fiski þá getum við enn bætt okkur í því að efla verðmæti útflutningsins meira en við höfum gert og landbúnaðurinn er í raun og veru sú matarkista sem er vannýtt og þá meina ég bæði til útflutnings og ekki síður til að spara gjaldeyri með því að nýta betur og efla landbúnaðinn hér á landi. Bæði er það hollusta matvaranna, það er atvinnuskapandi og það er gjaldeyrissparandi. Við þurfum að taka á mörgum hlutum í því að efla landbúnaðinn, vinna betur úr sjávarafurðunum og efla ferðaþjónustuna með varúð. Allt leggst þetta á eitt og það sem við (Forseti hringir.) þurfum að varast er að setja ekki öll eggin í sömu körfuna.