137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hvarflar að mér að hv. þingmaður nálgist hlutina þannig að skuldir verði þá fyrst til þegar menn fara að borga þær. Má ég þá biðja frekar hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur af hreinskilni sagt að skaðinn sé skeður, vandinn sé til staðar, áfallið sé orðið. Skuldirnar verða ekki til þegar við horfumst í augu við þær og tökum til við að reyna að greiða úr málum.

Varðandi Icesave liggur það að sjálfsögðu vel fyrir og hefur verið skoðað hvernig greiðslustaða og skuldaþol ríkisins einkum næstu árin er og það var í því ljósi sem kapp var lagt á það að fá sem lengst afborgunarleysi á lánum vegna þess að gríðarlega þungar afborganir falla á ríkið, bæði á þessu ári, árinu 2009, og aftur óheyrilegar fjárhæðir á árinu 2011. Og síðan, hvenær skyldi það nú vera sem þau lán sum voru (Gripið fram í.) tekin sem falla á gjalddaga 2011 og verður eins og málin horfa núna erfiðasta árið?

Við ræðum hér á morgun, ef ég veit rétt, skýrsluna um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Henni fylgja ýmis talnaleg gögn sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi kynnt sér. Hér er t.d. besta fáanlegt yfirlit um eignir og skuldir ríkissjóðs eins og þær eru metnar akkúrat núna í júnímánuði. Ég bendi hv. þingmanni á gögn á heimasíðu Seðlabankans. Ég bendi hv. þingmanni á þjóðhagsspána frá því í vor. Þetta eru nýjustu tölur sem við höfum og nýjustu gögn sem eru til í þessum efnum og fleiri munu bætast við á næstunni. Icesave-frumvarpið kemur til umræðu á þingi í þessari viku og því munu fylgja ítarleg gögn m.a. um það sem hv. þingmaður spyr um. Ef hann hefur biðlund í tvo daga held ég að hann fái spurningum sínum, mörgum hverjum, svarað þar, þar á meðal hvernig þetta lítur út þegar heildarskuldir ríkissjóðs eru allar settar í samhengi og greiðslubyrðin af þeim, afborganir og vextir eru færð inn í töflur og línurit og Icesave-hlutinn þar með talinn.