137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Sumt af því sem hann spurði um kom fram við framsögu mína með málinu en það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að þingmenn ítreki spurningar og hafi þær uppi í jafnstóru máli og hér er um að ræða. Ég held hins vegar að það sé kannski svolítið að fara fram úr sér að gera því skóna að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon víki sér undan því að flytja erfið mál, ég held að það hafi allir séð á síðustu vikum og mánuðum að síst hefur hæstv. fjármálaráðherra verið að víkja sér undan því að flytja erfið mál heldur komið með hvert málið á fætur öðru inn í þingið.

Ástæðan fyrir því að svo er um þetta mál búið — og ég bið líka hv. þingmenn að hafa þá virðingu fyrir nefndum þingsins og sjálfum sér að það sé ekki til minnkunar að þingmenn og þingnefndir flytji fram mál — er að hér um að ræða ákaflega mikilvægar heimildir fyrir Ísland og íslenskan efnahag og íslenska þjóð í þeirri stöðu sem við erum. Og það er mikilvægt að þær heimildir verði tiltækar og það greiðir einfaldlega fyrir því að málið komi fram í þinginu og að það fái umfjöllun að það er flutt af meiri hluta efnahags- og skattanefndar. Þess vegna lagði ég til að við færum þá leiðina vegna þess að það mun einfaldlega gefa okkur þeim mun lengri tíma til efnislegrar og vandaðrar umfjöllunar um málið í þinginu heldur en ef það hefði þurft að fara hina lengri leiðina sem stjórnarfrumvörpin þurfa að gera. Vegna þess að við sjáum kannski bráðum fyrir enda þingsins taldi ég mikilvægt að við greiddum fyrir vandaðri efnisumfjöllun um málið í þinginu og að þingið hefði sem allra mestan tíma til þess að fjalla um þetta og spyrja spurninga eins og hv. þingmaður er að setja fram. Ég mun leitast við að svara fleiri spurningum sem hann hefur borið upp í síðara andsvari mínu.