137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það í framsöguræðu minni og það kemur út af fyrir sig fram í málinu að fjárþörf sem verið er að fjalla um er 250 milljarðar vegna ríkissjóðs og það þekkja menn að á auðvitað fyrst og fremst að rekja til hallareksturs þessi missirin á ríkissjóði. Það er síðan jafnframt um að ræða 230 milljarða vegna lánveitinga frá Norðurlöndunum en það eru samningar sem þingmenn þekkja og út af fyrir sig verða þeir fjármunir geymdir á varasjóði þannig að það er nokkuð sérstök skuldsetning þar á ferðinni og sama gildir um lán frá Póllandi og Rússlandi sem eru upp á 85 milljarða. (Gripið fram í: 87.)

Síðan er það rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að gert er ráð fyrir um 385 milljörðum í eigið fé í bankana. Það hefur einfaldlega miðast við að bankarnir væru með eðlilegt eiginfjárhlutfall þegar þeir verða endurreistir nú á næstu vikum og við höfum auðvitað lagt ríka áherslu á það í þinginu og stjórnarandstöðunni ber að þakka hvað hún hefur hvatt til þess að því uppgjöri lyki sem fyrst. Ég held því að það sé mikilvægt að við reynum líka að greiða fyrir því að það séu heimildir til að fjármagna þá stofnsetningu á bönkunum. En það standa þó jafnvel vonir til þess að þessi upphæð eða þessi þörf gæti orðið lítið eitt minni.

Um kjörin ef ég reyni að fara yfir öll þessi þrjú atriði í stuttu andsvari, þá hygg ég að grunnvextirnir í þeim samningum geti verið af öðru tagi en um er að ræða í Icesave-samningunum án þess þó að þora að fullyrða um það. En eftir þeirri kynningu sem við höfum fengið á Icesave-samningunum þá var hins vegar punktaálagið ofan á grunnkjörin, að því er samningamenn okkar fullyrtu, hagstætt og það hlýtur að hafa verið hagstætt miðað við þann samanburð sem þeir hafa á alþjóðlegum lánamörkuðum í dag og um það sem Íslandi býðst þar. En um nákvæmar tölur um kjörin held ég að réttast sé að bæði hv. efnahags- og skattanefnd og hv. fjárlaganefnd verði upplýst í umfjöllun um málið á milli umræðna.