137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[19:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil sérstaklega byrja á að fagna þessu tækifæri, að eftir nokkuð langa bið fáum við tækifæri til að ræða heildstæða löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur, nokkuð sem við sjálfstæðismenn meðal annars kölluðum eftir í umræðum okkar og þeirri löngu snerru sem við áttum í þinginu á vordögum fyrir kosningar um hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar. Rétt er að taka fram að við sjálfstæðismenn ályktuðum sérstaklega á okkar landsfundi um mikilvægi þess að hér yrðu sett almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þess vegna vil ég sérstaklega fagna þessu tækifæri sem og þakka fyrir það samráð sem hefur verið haft við gerð þessa frumvarps. Það hefur verið töluvert. Síðan munum við að sjálfsögðu fylgja eftir ákveðnum álitamálum sem eru nokkur í nefndinni. Engu að síður eru þetta góð vinnubrögð að mínu mati og til fyrirmyndar sem ég hef jafnvel og gjarnan viljað sjá í öðrum málum talandi um ný og breytt vinnubrögð. En ég hefði gjarnan viljað sjá þessi vinnubrögð ná til stærri mála, til dæmis Icesave. Við erum reyndar að vinna að þessum málum meðal annars um ESB í utanríkismálanefnd og sjáum hvað setur með þá framvindu alla.

Hér er rætt frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil aðeins fara yfir nokkur atriði og nýta tækifærið til að spyrja hæstv. forsætisráðherra um þau líka. Að mínu mati er ljóst að við erum að tala um tvenns konar þjóðaratkvæðagreiðslur, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslur um breytingar sem snerta stjórnarskrána Við höfum ávallt lagt áherslu á að það þyrftu að vera ákveðnir þröskuldar þegar við erum að breyta ákvæðum sem tengjast stjórnarskránni. Þetta kom meðal annars fram í nefnd eða starfshópi um þjóðaratkvæðagreiðslur sem var skipaður 2004 sem átti að undirbúa lagasetningu um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. eftir að forseti hefur neitað að staðfesta lög.

Það má líka nefna breytingar á kirkjuskipaninni. Í 62. gr. segir, með leyfi forseta:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Svo segir í 79. gr. að ef það eigi að breyta kirkjuskipan ríkisins þá eigi slíka breytingu að leggja fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu, til samþykktar eða synjunar. Við teljum að þegar kemur að þessum ákvæðum þá þurfi að ræða það að hafa ákveðna þröskulda. Það er hægt að hugsa þá með margvíslegu móti. En ég held að það þurfi að krefjast ákveðinnar lágmarksþátttöku og hugsanlega aukins meiri hluta þegar svo umsvifamikil mál eru á ferðinni eins og snerta stjórnarskrána hvað það varðar.

Síðan eru mál sem snerta oftar atkvæðagreiðslur sem liggja hér til grundvallar. Þá er ekki sama ástæðan að mínu mati fyrir þá þátttökuþröskulda sem ég gat um áðan varðandi stjórnarskrána. Í þessu frumvarpi erum við að tala um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur eru hvorki bindandi fyrir ríkisstjórn né þingið til að fara eftir. En það er rétt að draga fram að eðli málsins samkvæmt hefur alltaf verið farið eftir þeim þjóðaratkvæðagreiðslum sem hafa verið haldnar hér á landi. Einhverra þeirra er getið í þessu frumvarpi. En það er langt síðan slík var haldin, töluvert síðan.

Það má túlka ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem ákveðna pólitíska leiðsögn sem beri að fara eftir. En þá verður líka að geta þess að því minni sem þátttakan verður því óskýrari er pólitíska leiðsögnin. Það er hægt að taka sem dæmi íbúalýðræðiskosninguna um veru flugvallarins í Vatnsmýrinni þar sem var samþykkt að flytja, með mjög naumum meiri hluta, flugvöllinn. En þátttakan var líka dræm. Við sjáum það að pólitíska leiðsögnin var að forminu til að flytja flugvöllinn. En henni hefur ekki verið fylgt eftir, guði sé lof, og það er mín skoðun að flugvöllurinn eigi að vera þar sem hann er. Þetta er dæmi um atkvæðagreiðslu þar sem er sagt um ákveðinn hlut sem síðan hefur ekki verið fylgt eftir af hinu pólitíska valdi. Þeim mun minni þátttaka, því erfiðari er — eða er hægt að tala um ákveðna þröskulda.

Að sjálfsögðu gefur frumvarpið tilefni til ákveðinna spurninga eins og þeirra hvort frumvarpshöfundar eða frummælandi, hæstv. forsætisráðherra, sjái fyrir sér að þjóðaratkvæðagreiðslum muni fjölga, hvort hún telji það æskilega þróun. Eða er það kannski markmið í sjálfu sér? Er það eitt af markmiðum hæstv. forsætisráðherra? Miðað við orð forsætisráðherra í andsvari áðan má ætla að þjóðin eigi að fá í ríkari mæli að taka afstöðu í ákveðnum málum. Ég get í sjálfu sér tekið undir það að í ákveðnum stórum málum eigi þjóðin að hafa aukið vægi eða aukinn aðgang. Við eigum að færa valdið meira og með ákveðnari hætti en hefur verið til fólksins með þjóðaratkvæðagreiðslum. Við erum að tala hér um þjóðaratkvæðagreiðslur að sjálfsögðu með ESB og það er fagnaðarefni að allir flokkarnir tala um að þjóðin eigi að greiða atkvæði um samning sem snertir hugsanlega aðild að ESB.

En þá erum við komin að ákveðnu kjarnaatriði. Á slíkur samningur að vera settur fram í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ráðgefandi eða bindandi? Mér finnst þetta algert lykilatriði, þ.e. að í jafnviðurhlutamiklu máli og hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu þá sé hið raunverulega vald hjá þjóðinni því sú staða getur nefnilega komið upp að þegar heim er komið með samning þá verði hann samþykktur með 51% atkvæða og 49% greiða atkvæði á móti. Þá verður farið í að breyta stjórnarskránni og í þeim kosningum sem verða þar á eftir þá bjóða sig kannski fram einstaklingar sem hafa það að markmiði að fella samninginn. Þegar slíkir einstaklingar eru komnir hingað inn á þing hugsanlega með meiri hluta þá er þeirra umboð fengið ekki í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem var ráðgefandi heldur fengið í lýðræðislegum kosningum. Þeirra umbjóðendur eru þeir sem kjósa þá. Þetta er hugsanlegt. Þetta er bara ekki einhver teoría og ekki teoretískt dæmi heldur er raunveruleg hætta á því að svona aðstæður komi upp hér af því að við sjáum það í löndunum í kringum okkur að alls staðar þar sem hafa verið þjóðaratkvæðagreiðslur þá hefur verið mjótt á munum. Þó að samningur verði samþykktur í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá vitum við að til eru mjög eindregnir andstæðingar Evrópusambandsins og þeir munu halda áfram baráttu sinni alveg hingað inn á þing. Ekkert er óeðlilegt við það þegar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu er að ræða. Þess vegna teljum við mikilvægt að þegar við segjum að bera eigi slíkan samning undir þjóðina að þá hafi hún hið raunverulega vald, þá hafi þjóðin endanlegt vald til að binda þingið. Ég held að það skipti mjög miklu máli að þjóðin hafi það á tilfinningunni að þetta sé ekki bara upp á punt. Ég legg því ríka áherslu á að svo verði þegar fram í sækir. En þegar maður les frumvarpið þá gefur það að sjálfsögðu líka tilefni til að hugsa hvort það sé þá núna tækifæri til þess að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég þekki vissulega mjög skýra afstöðu forsætisráðherra í því efni. Ég held engu að síður að þetta frumvarp ekki síst bjóði upp á að sú umræða verði þyngri, að það verði farið í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Af hverju segi ég það? Jú, tvenn rök vega þar þyngst, annars vegar þau að ríkisstjórnin er ekki einhuga í málinu. Hún er má segja klofin í því máli og síðan hitt, að með því að segja já við því að fara í aðildarviðræður þá erum við í rauninni að segja að við séum reiðubúin til þess hugsanlega að afsala okkur fullveldi á ákveðnum sviðum. Það eru mjög þung rök sem hægt er að færa fyrir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frú forseti. Ég vil hnykkja á þeirri spurningu minni frá því áðan hvort það sé markmið í sjálfu sér með þessu frumvarpi hjá hæstv. forsætisráðherra að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum og ef svo er, af hverju þá komi ekki til álita að beita þjóðaratkvæðagreiðslum í stóru máli sem reyndar hefur verið nefnt fyrr í dag — menn hafa nefnt Icesave. Það er sjónarmið út af fyrir sig þó menn þurfi ekki endilega að vera sammála því — og síðan ekki síst hugsanlega varðandi aðildarviðræður að Evrópusambandinu.

Ég vil fylgja þessum spurningum eftir og setja fram vangaveltur um það að þegar og ef komið er með samning um Evrópusambandið heim þá hefur verið rætt um að gefa frjálsum félagasamtökum og eins hugsanlegum nei- og já-hreyfingum tækifæri til að kynna sín sjónarmið og berjast fyrir þeim eftir atvikum. Ég greini að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að það geti verið þrír mánuðir sem slíkar hreyfingar hafi og allt upp í eitt ár. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvernig hún sjái framvindu slíkra mála. Hvað fá einstaklingar og félagasamtök langan tíma til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslur?

Ég vil ítreka það sem ég gat um í upphafi að við teljum að varðandi þær breytingar sem snerta stjórnarskrána þurfi ákveðna þröskulda, það þurfi ákveðna hugsanlega lágmarksþátttöku til að breyta því sem snertir stjórnarskrána. En varðandi önnur mál þá verða menn líka að átta sig á því að þá erum við að tala um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur og því lakari sem þátttakan er í slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum því lakari er hin pólitíska leiðsögn fyrir viðkomandi stjórnvöld.

Að öðru leyti vil ég ítreka þakkir mínar fyrir það samráð sem hefur verið viðhaft í þessu máli sem er mikilvægt og mjög brýnt að það hafi komið fram. Nefndin mun að sjálfsögðu fara vel yfir þau álitamál sem hafa komið upp í tengslum við þetta frumvarp og ég efast ekki um að samvinna milli flokkanna sem er æskileg verði áfram góð eins og hún hefur verið í þessu máli.