137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjáraukalög.

50. mál
[14:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að það er komið fram að hæstv. fjármálaráðherra lítur svo á að ekki þurfi að endurskoða fjárlögin fyrr en í haust þrátt fyrir allar þær hremmingar sem á okkur hafa dunið. Það er líka merkilegt í ljósi þess að miklar yfirlýsingar hafa verið hafðar uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar um ríkisfjármálin og hvernig ætti að taka til þar, breyta hlutum og öðru slíku. Svo virðist sem menn líti svo á sem hinn svokallaði bandormur og sú skýrsla sem flutt var í vikunni varpi ljósi á alla þessa hluti. Hins vegar er ljóst að bandormurinn er fyrst og fremst einhvers konar skattahækkunarplagg og á skýrslunni sem ráðherra flutti er ekki mikið mark takandi, vil ég meina, ekki síst vegna þess að inn í hana vantar líklega stærstu skuldbindingar sem þjóðin er að taka sér á hendur. Því kemur þessi afstaða hæstv. fjármálaráðherra svolítið á óvart.