137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins segja vegna orða hv. þingmanns, um hugmyndir um endurhverfu lánin eða þær kröfur sem ríkið á vegna þeirra og sparisjóðanna, að þetta eru ekki hugmyndir þeirrar sem hér stendur. Það er mikil ofrausn að eigna mér þær. Þetta eru hugmyndir sem voru kynntar af fulltrúum fjármálaráðuneytisins, m.a. í minnisblaði sem var lesið upp í dag. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason las upp úr því.

Ég endurtek þess vegna aðeins það sem ég sagði. Ég var að vísa til þess að þar var um að ræða 12,5 milljarða kr. Ég þekki hins vegar ekki til þessara lána sem hv. þingmaður er að nefna vegna Sparisjóðabankans og endurtek það sem ég sagði áðan, að ég tel eðlilegt og í rauninni sjálfsagt að það eins og aðrar kröfur sem ríkið á á sparisjóðina hljóti að koma inn í þá mynd þegar menn eru að fara inn í fjárhagsstöðuna og leita leiða til að treysta hana og ég vil fullyrða með sem minnstri niðurfærslu stofnfjár. Ég tel það sjálfsagt og eðlilegt.

Ég verð hins vegar að endurtaka að ég þekki ekki til þeirra lána sem hv. þingmaður er að tala um. Þau komu ekki til umræðu á fundum nefndarinnar en miðað við þær upplýsingar sem komu fram frá fulltrúa fjármálaráðuneytis um það að öðru leyti tel ég sjálfsagt og eðlilegt að þau séu með í þessari mynd eins og allar aðrar kröfur. Ég vil einnig ítreka að það getur reynst nauðsynlegt að kröfuhafar, ef þeir eru einhverjir aðrir en ríkið, skrifi niður eitthvað af kröfum sínum á móti niðurfærslu stofnfjár til að allir leggi eitthvað af mörkum inn í þennan pott að koma sparisjóðakerfinu á fót. Þetta kom líka fram fyrir nefndinni og í því minnisblaði sem hér hefur verið lesið úr.