137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

stýrivextir.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru mér eins og öðrum mikil vonbrigði að stýrivextirnir skuli ekki lækka hraðar en raun ber vitni. Þeir hafa þó lækkað úr 18% í 12% á tiltölulega stuttum tíma og ég hygg að skýringarnar séu m.a. þær að krónan þurfi að styrkjast meira. Það hefur verið misbrestur á því að gjaldeyririnn hafi skilað sér inn í landið eins og bera ber og á því hafa Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið verið að taka.

Ég tel að skoða þurfi miklu betur að þeir fjármunir sem eru erlendis skili sér betur inn í landið, á því hefur verið misbrestur m.a. hvað varðar álfyrirtækin. Ég veit að Seðlabankinn er að taka á því þessa dagana enda hefur krónan lítillega styrkst síðustu tvo daga. Það veldur vissulega vonbrigðum að stöðugleikasáttmálinn sem gerður var og ríkisfjármálin sem hafa verið kynnt á þinginu og skýrsla þar að lútandi hafi ekki haft þau áhrif að stýrivextir lækki en ég hef fulla trú á að þau markmið sem sett eru t.d. í stöðugleikasáttmálanum um að stýrivextir verði komnir niður í eins stafs tölu með haustinu muni standa. Ég tel allar forsendur fyrir því. Það er líka mikil óvissa uppi m.a. að því er varðar Icesave-samningana svo þeir séu nefndir, að allt þetta til samans, veik króna, gjaldeyrir sem skilar sér ekki til landsins, þetta tvennt og svo ýmsir óvissuþættir bæði varðandi bankana og Icesave-samningana séu þess valdandi að peningastefnunefnd hefur ekki treyst sér til að lækka stýrivextina á þessum degi.