137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:37]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau atriði sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leggur áherslu á eru öll kórrétt. Það er einmitt út frá þeim þáttum sem við verðum að vinna þetta mál áfram. Það er alveg klárt, virðulegi forseti, að fjármálaráðherra er ekki öfundsverður í því hlutverki sem hann er. Hann nýtur mikillar reynslu af baráttu, sækinni baráttugleði. En það fer heldur ekki fram hjá manni þegar maður hefur unnið með hæstv. fjármálaráðherra áratugum saman að það er ekki glampi í augum hans, það er enginn glampi í augum hans. Hann er að vinna óþurftarverk og auðvitað skilur hann það. Hann hefur sagt það þó að hann reyni að standa í þeim sporum sem hann er. Hann hefur samúð mína.

Það réttlætir ekki að sigla í strand. Það skiptir öllu máli þegar um er að ræða að skútan er í brimgarði og komin út að láta hana ekki hrekjast upp í klettana. Það er hluti af því að rækta þjóðernisþáttinn, metnaðinn fyrir hönd Íslands en að vera ekki núll og nix í Evrópu.

Hvað Evrópusambandið varðar, af því að það hefur komist til tals í þessari umræðu og þessi atriði eru samtvinnuð, vill það kokgleypa íslenskt sjálfstæði og þeir munu ekki einu sinni skyrpa beininu, þeir kokgleypa það ef þeir fá tækifæri til þess. Þeir munu láta beinið gossa líka og hafa engar áhyggjur af einhverjum smámunum eins og að slátra einni þjóð. Svo erum við að gagnrýna gamaldags þjóðir í Afríku sem sigla niður heilu þjóðirnar. Hvað er verið að gera hér á norðurhveli? Það er verið að (Forseti hringir.) sigla nákvæmlega sama streng að íslensku sjálfstæði.