137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

gjaldeyrismál.

137. mál
[22:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á ákvæðum laga um gjaldeyrismál er snúa að óheimilli milligöngu með gjaldeyrisviðskipti og erlendan gjaldeyri. Í því ljósi verði jafnframt heimilt að beita alvarlegri viðurlögum, þ.e. sektum eða fangelsi, sé um meiri háttar brot að ræða.

Þá er lagt til að rannsóknarheimildir Fjármálaeftirlitsins verði styrktar og allur vafi tekinn af um að þau úrræði sem fram koma í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gildi einnig við rannsókn brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál.

Ástæðan fyrir þessari breytingu nú er að við breytingu á viðurlagaákvæðum laga um gjaldeyrismál í nóvember 2008 fórst fyrir að kveða á um að brot gegn 8. gr. laganna væru refsiverð, en samkvæmt 8. gr. er öðrum en þeim sem hafa heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili eða hafa leyfi frá Seðlabankanum óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi.

Nefndin fjallaði um málið og fékk gesti og álit. Fyrir nefndinni kom fram að gjaldeyrishömlur hafa leitt til þess að annar gjaldeyrismarkaður hefur skapast fyrir íslenska krónu erlendis. Vegna þessa hafa menn séð sér hag í því að sinna milligöngu um gjaldeyrisviðskipti án tilskilinna leyfa til að nýta þann mismun sem er á gengi krónunnar á markaði hér heima og erlendis. Slík hegðun skapar óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði og veikir gengi krónunnar. Fram kom að brýnt væri að tryggja Fjármálaeftirlitinu allar nauðsynlegar rannsóknarheimildir og taka af tvímæli um úrræði stofnunarinnar.

Meiri hlutinn leggur til á þskj. 243 orðalagsbreytingu á 4. efnismálsgrein 2. gr. til að hnykkja á því að tilvísun í 9.–11. gr. eigi við um lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu.

Eygló Harðardóttir skrifar undir álitið með fyrirvara. En auk þeirrar sem hér stendur, sem er framsögumaður meiri hlutans, eru á þessu áliti Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Mósesdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir og sem fyrr segir Eygló Harðardóttir með fyrirvara.