137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[11:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fjárhagsleg endurskipulagning skuldsettra atvinnufyrirtækja er eitthvert brýnasta hagsmunamál sem fyrir okkur liggur núna vegna þess að það eru fyrirtækin og fólkið í þeim sem á að standa undir þeirri verðmætasköpun sem á að gera okkur kleift að ráða við þær miklu skuldbindingar sem við nú göngumst undir og eiga að standa hér undir velsæld í allri framtíð.

Þetta mál númer eitt á þessu þingi er til þess fallið að hraða þeirri endurskipulagningu og styðja bankana og fjármálafyrirtækin í því starfi sínu. Ég þakka hv. nefndarmönnum mínum fyrir gott samstarf í málinu og minni á að enn er frumvarpið um Bankasýslu hér til umfjöllunar og ekki er loku fyrir það skotið að það geti tekist sátt um skipan stjórnar þessa félags eins og um alla aðra liði málsins.