137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[11:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér er vandi á höndum. Þannig er að það náðist fram mjög mikil breyting á þessu frumvarpi í meðförum efnahags- og skattanefndar og ég er búinn að mæra hv. formann vegna þess. (Gripið fram í.) En nú er búið að gera á þessu breytingu, að það er komin inn Lánasýsla ríkisins. (Gripið fram í: Bankasýsla.) Bankasýsla ríkisins. (Gripið fram í.) Það er von að menn þekki ekki nöfn á fyrirtækjum sem ekki er búið að setja lög um. Spurningin er um 7. gr. þess frumvarps þar sem stendur að það skuli vera valnefnd vegna stjórnarsetu í bankaráðum og stjórnum fjármálafyrirtækja. En þetta er ekki bankastofnun eða fjármálafyrirtæki þannig að það er væntanlega formaður eða starfsmaður þessa félags sem mun ákveða stjórnina í þessu félagi sem við erum að ræða hér. Þá fer nú ljóminn af ýmsu. Ég treysti því — en mun samt sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) — ég treysti því að frumvarpi um Bankasýslu ríkisins verði breytt þannig að hægt verði (Forseti hringir.) að framkvæma þau atriði sem hér er (Forseti hringir.) mjög vel tekið fram.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill árétta að menn virði ræðutíma.)