137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég hef ræðu mína langar mig að óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra komi í salinn og hlusti á ræðu mína. Ég hef í hyggju að beina til hans spurningu. Hann lýsti því hér yfir áðan að hann væri glaður í hjarta sínu á þessum drottins degi og það skynjar maður mjög á samfylkingarmönnum að þeir eru léttfættir á göngum Alþingis og fallast nánast í faðma, enda vita þeir sem víst að Ísland mun að loknum atkvæðagreiðslum á morgun væntanlega hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Ég hafði áhyggjur af því að hæstv. utanríkisráðherra væri hugsanlega dottinn í bloggheima. Nú fer að nálgast miðnætti (Utanrrh.: Farinn til Brussel.) og þá skiptir hæstv. utanríkisráðherra stundum um ham. Mig langar að spyrja bara strax. Ég var einmitt að velta því fyrir mér, af því að í ályktun þarsíðasta flokksþings Framsóknarflokksins þá töldum við að við þyrftum að ná stöðugleika í atvinnulífinu, hvort hæstv. utanríkisráðherra telji að við uppfyllum Maastricht-skilyrðin og hvað það taki okkur langan tíma að ná þeim og þá að ná upptöku evru. Ég hefði áhuga á að fá svar við því.

Önnur ræða vakti athygli mína og það var ræða hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundar Jónassonar. Eftir því sem ég hlustaði betur þá áttaði ég mig á því að hann er, mundi ég orða það, á lymskufullan hátt að finna sér leið til að réttlæta það fyrir sjálfum sér að Vinstri grænir eru núna að svíkja sitt helsta kosningamál með því að fara í aðildarviðræður við ESB. Ég held að það dyljist engum sem háðu kosningabaráttu fyrir tveim mánuðum síðan að þeirra helsta baráttumál — ég get sérstaklega tekið fram að það átti við í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi — var einmitt að ganga ekki í ESB og þeir héldu fundi sérstaklega með bændum og fullvissuðu þá um að ekki yrði gengið í Evrópusambandið. Ég var að hugsa um hvort ekki væri samlíking með þessu og bændafundi sem var haldinn á Hótel KEA þegar ég óskaði eftir því við þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra Steingrím J. Sigfússon að hann færi strax í að lengja búvörusamninga og þá kom annar frambjóðandi frá Vinstri grænum og sagði að það tæki mánuð ef ekki ár að ná fram þeirri lengingu, en kom svo upp í pontu með skottið á milli lappanna hálftíma síðar og sagði að kannski væri hægt að semja strax á morgun. Ég held að það sé einhvers konar þannig blekkingaleikur sem Vinstri grænir eru í vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra sagði hér áðan í ræðu til að styðja við mál sitt: „Ég er ekki í mótsögn við sjálfan mig.“ En það segja menn alla jafna ekki nema þeir séu ansi nálægt því að vera í mótsögn við sjálfa sig. (Utanrrh.: Það hendir alla góða menn af og til.) Það hendir góða menn af og til. Það er rétt. En ég held að Vinstri grænir séu á einhvern hátt að reyna að blekkja sjálfan sig. Þeir halda að með því að stíga það skref sem þeir ætla að stíga núna geti þeir bara strax á föstudaginn farið að vinna gegn aðild að ESB. Þeir ætla sem sagt að teyma þjóðina af stað, stíga skrefið, en ætla svo að fara að vinna — það er byggt á þeim rökum að nú eigi þjóðin að fá að kjósa um þetta atriði og að nauðsynlegt sé að skera úr um þetta deilumál. Ég get bara ekki skilið hvernig verið sé að skera úr um þetta deilumál eða ná lendingu í því með því í rauninni að fallast algjörlega á málstað annars aðilans vegna þess að deilt hefur verið um að fara í aðildarviðræður, sækja um aðild, leggja inn umsókn eða sleppa því. Nú er einmitt verið að leggja inn umsókn.

Þá vil ég rifja upp ummæli sem fyrrverandi þingmaður, að mig minnir Vilhjálmur Egilsson, sagði eitt sinn þegar hann var í mótsögn við sjálfan sig: „Ég er ekki ég.“ Það er einmitt frammi fyrir þessu sem Vinstri grænir standa, að þeir eru að reyna að segja við þjóðina og sína kjósendur sem eru illir og finnst þeir illa sviknir: „Ja, ég er ekki ég í þessu máli.“ (Utanrrh.: Ég er annar, sagði Megas.) „Ég er einhver annar,“ eins og hæstv. utanríkisráðherra kallar hér fram í og þetta er (Utanrrh.: Vitnar í Megas.) sorglegt. Það er reyndar ekki hægt að taka dýpra í árinni.

Ég vil líka bregðast aðeins við ummælum sem komu fram hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni þar sem hann vísaði í fund fjárlaganefndar og sagði, af því að hann var að tala um þessi tengsl sem eru augljóslega milli Icesave og Evrópusambandsins, að hér hefðu komið aðilar vinnumarkaðarins og haldið því fram einróma, ef ég skildi hann rétt, að þetta skaðaði málstað Evrópusinna. Ég vil nú bara leiðrétta þingmanninn (SER: Ég sagði ekki einróma.) vegna þess að ég skildi hann á þann hátt. Það var einn aðili sem lýsti því yfir að þetta skaðaði málstað Evrópusinna. En ég vil líka taka það sérstaklega fram að enginn af þeim aðilum fyrir utan Samtök verslunar og þjónustu — þar sem mætti á svæðið varaþingmaður Samfylkingarinnar — hafði haft fyrir því að kynna sér málið sérstaklega og mynda sér skoðun þannig að þeir sem sátu hjá fjárlaganefnd í tvo tíma ræddu við okkur um sínar persónulegu skoðanir. Ég held að ég geti fullyrt að aldrei hefur tíma mínum sem þingmanni verið verr varið en akkúrat á þeirri stundu jafnvel þó að þetta sé nú allt saman sómafólk og gaman að spjalla við það bara undir öðrum kringumstæðum.

Ég get ekki látið hjá líða að vísa enn og aftur í að ég tel einmitt að ályktun flokksþings Framsóknarflokksins sé þverbrotin í þessari þingsályktunartillögu og eins og ég hef ítrekað bent á þá er ekkert um skilyrði flokksins í þessu nefndaráliti eða þessari þingsályktunartillögu. Þar er hins vegar talað um sjónarmið og að það eigi að fylgja einhverjum sjónarmiðum, ekki skilyrðum, og ég skil ekki orðin á sama hátt. Mig langar einmitt að benda á orð í nefndaráliti meiri hlutans þar sem fjallað er um sjávarútvegsmál. Það er farið ágætlega yfir þetta þar en á engan hátt staðfest þau skilyrði sem framsóknarmenn hafa sett. Ég ætla að lesa upp úr nefndarálitinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samstaða var í nefndinni um meginmarkmið“ — ef þarna hefði staðið „skilyrði“ þá hefði þetta kannski væntanlega þýtt eitthvað annað — „í samningaviðræðum við ESB varðandi sjávarútveginn.

Síðan kemur, með leyfi forseta:

„Auk þess verði leitað eftir eins víðtæku forsvari í hagsmunagæslu í sjávarútvegi ... og kostur er lúti málefni að íslenskum hagsmunum.“

Það á sem sagt að fara þarna út og reyna eins og kostur er að leitast við að ná fram einhverjum hagstæðum samningum fyrir Íslands hönd. En það er ekki gert að skilyrði. Það er einmitt þetta sem Bændasamtökin hafa verið að benda á, að það er hvergi að finna skilyrði heldur varðandi landbúnaðinn, (Gripið fram í: Engin skilyrði.) engin skilyrði og í rauninni er ekki fjallað um landbúnaðinn í heild. Það er tekinn þröngur, hvað á ég að segja, lítill kassi (Forseti hringir.) landbúnaðarins sem bendir til þess enn og aftur að skilyrði Framsóknarflokksins varðandi (Forseti hringir.) aðild að Evrópusambandinu eru ekki uppfyllt.