137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[15:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur sáralítið gert á vinnumarkaði annað en að draga úr vilja manna og draga úr elju manna til þess að vilja reyna að berjast áfram. Svo má tala um þá sem vilja efla hér stóriðju, laða til landsins stærri og öflugri fyrirtæki. Það má tala þannig um sjávarútveginn sem er í algjöru uppnámi vegna áforma ríkisstjórnarinnar í fiskveiðistjórnarkerfinu, þar er algjört uppnám. Svona má tala um verslun og þjónustu í landinu þar sem er algjört uppnám líka og það er hægt að tala svona nánast um hvern þann atvinnuveg sem við stundum. Staðan er háalvarleg og með sömu vinnubrögðum gerist ekkert annað á vinnumarkaði en að atvinnuleysi eykst, (Forseti hringir.) og það er það versta sem getur haldið hér áfram.

Ég ítreka það því, virðulegi forseti, að í stað þess að eyða tíma okkar hv. þingmanna í að ræða þá dagskrá sem er lögð fyrir þingið í dag snúi (Forseti hringir.) menn sér að því ræða alvörumál og við komum að því vandamáli sem er í þessu samfélagi, því stóra vandamáli.