137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[15:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að gera grein fyrir efni þessa frumvarps svo langt sem það nær og einnig þeirri breytingartillögu sem nefndin flytur við frumvarpið sem ég hygg að sé til bóta þó ég ætli að koma aðeins betur að því síðar.

Þetta frumvarp er þess eðlis að það getur kallað á margs konar umræðu og vangaveltur sem ég held að sé nauðsynlegt aðeins að vekja upp. Þá langar mig fyrst að velta því einfaldlega fyrir mér hvernig við förum að því að lögfesta ýmsar gerðir Evrópusambandsins á sviði réttarfars eins og þeirrar sem við erum um það bil að fara að lögfesta. Um þetta mál virðist ætla að takast almenn og breið pólitísk samstaða þannig að engar líkur eru á öðru en að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi. Þess vegna er full ástæða til að reyna að velta fyrir sér efni málsins og einnig hvernig við stöndum að því að innleiða þessar gerðir.

Í fyrsta lagi varðandi þetta frumvarp almennt vil ég segja að mál af þessu taginu sem fjallar um tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti kallar auðvitað á það í sjálfu sér, ekki síst því andrúmi sem núna ríkir í þjóðfélaginu, að í frumvarpinu sé gerði miklu betri grein fyrir efni málsins en þar er gert. Hér er verið að fjalla um óréttmæta viðskiptahætti og verið að innleiða í lög með þessum hætti tiltekna þætti þeirra mála og vísað mjög í einstaka kafla, bæði í gerðum Evrópusambandsins og í gildandi lögum. Hins vegar er manni alls ekki ljóst þetta samhengi málsins með því að lesa þetta frumvarp eitt og sér. Þetta er býsna tæknilegt mál, ég segi ekki að það sé bara fyrir innvígða og innmúraða. Það er hægt að átta sig á hinum tæknilegum breytingum með því að lesa vandlega yfir texta málsins en hið stóra samhengi sem við erum að fjalla um, þessi löggjöf og tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti, en það hefði auðvitað verið eðlilegt af hálfu hæstv. viðskiptaráðherra að gera nánari grein fyrir því í athugasemdum um frumvarpið. Það er auðvitað skaði að ég skyldi ekki eiga þess kost á þeim tíma að vekja máls á þessu þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu. Þess vegna nýti ég það tækifæri sem ég hef núna til að fara yfir það sem ég tel vera mikið aðfinnsluefni, að ekki skuli gerð betri grein fyrir bakgrunni málsins sem ég geri að umtalsefni.

Það er auðvitað ekki einfalt mál að innleiða þessar gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins og Alþingi hefur gert nokkrar atrennur að því að fara yfir það hvernig skynsamlegt sé að vinna þessi mál á þinginu. Við vitum hvernig þetta ber að. Það er lögð fram þingsályktunartillaga sem utanríkismálanefnd fer yfir og síðan, ef tilefni er til, er flutt frumvarp til að lögfesta efnisþætti tilskipunarinnar ef ekki liggja þegar fyrir lög í því sambandi. Þess vegna held ég að það væri mjög til bóta bæði í þessu máli og ýmsum öðrum þegar þau eru lögð fram, mál sem eru í rauninni kannski að megninu til eða uppistöðu til tæknileg, þá væri auðvitað nauðsynlegt að við gerðum grein fyrir hver hin stóra mynd er sem við erum að fjalla um. Ég man að á frumbernskuárum EES-samningsins voru þess mál oft til umræðu og ég man sérstaklega eftir ljóðrænum leiðara Alþýðublaðsins sáluga sem félagi Hrafn Jökulsson skrifaði sem hét „Pósturinn Páll“ og fjallaði um hlutskipti þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra sem hafði verið í óðaönn að taka við pósti frá Brussel sem var síðan nánast framsendur hingað til þingsins. Það losar þingið auðvitað ekki undan þeirri ábyrgð að fara efnislega yfir þessi mál eins og vel og hægt er. Til að við þingmenn, a.m.k. þeir sem standa utan um þær þingnefndir sem í hlut eiga, getum áttað okkur á málinu er mjög mikilvægt að efni þess sé betur reifað en gert er í þessu frumvarpi.

Ef við skoðum hvernig það er rakið t.d. í nefndaráliti hv. viðskiptanefndar hvernig staðið var að þessari tilteknu reglugerð, þá segir þar svo í 3. mgr., með leyfi forseta:

„Reglugerð EB, nr. 2006/2004 frá 27. október 2004, um samvinnu um neytendavernd var tekin upp“— ég vil biðja fólk um að veita þessu athygli — „í íslenskan rétt á þann hátt að birta sjálfa reglugerðina sem fylgiskjal við lögin. Í viðauka við reglugerðina eru taldar upp þær EB-tilskipanir og -reglugerðir sem teljast vera ,,lög til verndar hagsmunum neytenda“.“

Í 1. gr. þessa frumvarps er hins vegar lagt til að heimilt verði á grundvelli 3. gr. laganna, þeirra laga sem vísað er til, að láta viðaukann hafa reglugerðargildi. Með öðrum orðum er hér verið að breyta þessu talsvert að því leytinu að áður hafði reglugerðin verið birt sem fylgiskjal við lögin en farið öðruvísi með viðaukann. Nú er verið að leggja til að viðaukinn sjálfur hafi sjálfstætt reglugerðargildi. Síðan er það hugsunin á bak við þetta frumvarp eins og kemur fram í 1. gr. að ef breytingar verði síðar gerðar á þessum viðauka eigi að vera hægt að bæta við upptalninguna á þessum lögum, með leyfi virðulegs forseta, „sem teljast vera lög til verndar hagsmunum neytenda“. Það verði unnt með breytingu á reglugerð að bæta þeim við upptalninguna. Þarna er auðvitað verið að stytta sér leið. Viðskiptaráðuneytið er í raun að afla sér heimilda til að hafa það vald að geta breytt reglugerð með einföldum hætti og bætt við þessa upptalningu eins og þörf krefur. Síðan er það rakið að ef frumvarpið verði að lögum gæti viðskiptaráðherrann haft heimild til að bæta 16. tölulið við viðaukann eins og mælt er fyrir í frumvarpinu.

Það vekur síðan athygli og má segja að sé undirritað með breytingu viðskiptanefndar að eins og málið var lagt upphaflega fram var þessi heimild alveg ótrúlega opin. Svo opin í rauninni að það má ætla að þarna hafi tilraun verið gerð til þess, væntanlega óafvitandi, að fela hæstv. viðskiptaráðherra, sem vel að merkja er í dag einstaklingur sem stendur utan þingsins, hæstv. viðskiptaráðherra til að leiða inn í þessa reglugerð sem fer ekki fyrir Alþingi upptalningu á tilgreindum atriðum. Þetta hefði auðvitað verið mjög alvarlegur hlutur. Þess vegna eins og ég sagði í upphafi fagna ég því að hv. viðskiptanefnd hefur ákveðið að leggja til breytingu við þetta frumvarp sem gerir það að verkum að hæstv. ráðherra getur ekki bætt við inn í viðaukann nánast eftir „smag og behag“ eins og upphaflegt frumvarp gerði ráð fyrir heldur er eingöngu um það að ræða að hann getur einungis haft inni í viðaukanum þau atriði sem þegar hafa verið innleidd.

Að vísu er það svo að ef Alþingi hefur samþykkt þessi tilteknu atriði er hæstv. ráðherra heimilt að færa þau atriði, sem aflað hefur verið lagaheimildar til á Alþingi, inn í þennan viðauka. Það er því ekki alveg nákvæmt eins og kemur fram í nefndaráliti viðskiptanefndar að hér sé um að ræða orðalagsbreytingu. Hér er um að ræða efnisbreytingu og raunar mjög mikilvæga efnisbreytingu. Maður spyr sjálfan sig þegar þetta er lesið og þessi mál rakin í sögulegu samhengi hvort ekki sé ástæða til þess að Alþingi fari mjög rækilega yfir tilskipanir af þessu taginu, hvort sem þær koma úr þessu ráðuneyti eða öðrum, með hliðsjón af því verklagi sem Alþingi hefur tamið sér. Það er augljóst mál að í þessu litla, sakleysislega frumvarpi, þar sem hið stóra, efnislega samhengi er ekki rakið, var ákvæði sem fól í sér algerlega óviðunandi og óeðlilegt vald sem í þessu tilviki hæstv. viðskiptaráðherra hefði getað fengið.

Nú er ég ekki að segja að hæstv. viðskiptaráðherra hefði verið líklegur til að misnota þetta vald. Það er hins vegar ljóst að hefði málið ekki fengið þessa meðhöndlun viðskiptanefndar og hefði hv. viðskiptanefnd ekki kosið að gera þessa breytingartillögu hefði í raun og veru verið opnað á ótrúlega mikla möguleika framkvæmdarvaldsins til að breyta þessum viðauka eins og það lysti. Það er mjög slæmt og mér finnst ástæða til að hafa nokkur orð um þetta mál. Ég ítreka sem sagt að þessi efnisbreyting sem viðskiptanefndin er að gera er ekki orðalagsbreyting, heldur efnisbreyting sem skiptir máli. Almennt sýnist mér að þetta feli í sér aukið reglugerðarvald ráðherra. Viðaukinn, sem verður reglugerð í framtíðinni, getur haft tvíþættan tilgang, annars vegar að vera skrásetning á sögunni og hins vegar aðferð við að tína þær breytingar sem Alþingi hefur gert inn í reglugerðina.

Einmitt um þessar mundir er full ástæða til að velta fyrir sér ýmsum þáttum sem lúta að óréttmætum viðskiptaháttum í þjóðfélagi okkar. Við þurfum ekki annað en fletta blöðunum dag frá degi til að átta okkur á því að hér er um að ræða mjög alvarlega hluti. Það er engin tilviljun að í Evrópusambandinu og á hinu Evrópska efnahagssvæði skuli vera mikill skógur laga og reglna um óréttmæta viðskiptahætti eins og málin þróast nú. Þeir óréttmætu viðskiptahættir sem væntanlega er vísað til eiga sér ekki bara stað í einstökum þjóðríkjum heldur yfir landamæri. Þau dæmi sem við höfum séð í okkar litla þjóðfélagi upp á síðkastið eru lýsandi fyrir það. Þetta tekur til mjög margra hluta og snýr ekki bara að neytendavernd og öðru slíku. Hér getur verið um að ræða mjög flókna hluti sem þarf að mæta með sameiginlegu átaki þeirra ríkja sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þess vegna er út af fyrir sig fagnaðarefni þegar færi gefst á að fjalla aðeins um þessa löggjöf. Því ítreka ég að ég tel, ekki síst í ljósi þess umhverfis sem við erum í núna, að þetta frumvarp sem hefur yfir sér yfirbragð tæknilegra leiðréttinga á flóknum fjarlægum gerðum hefði átt að vera gert þannig úr garði að okkur væri betur ljóst um hvers konar löggjöf við værum að fjalla, hvaða löggjöf þetta snerti og hvað nákvæmlega væri við að eiga.

Ég vil í þessu sambandi líka, vegna þess að hér er staddur hv. formaður nefndarinnar, vekja athygli á því að í Morgunblaðinu í morgun er fjallað um einn anga þessa máls sem snertir óréttmæta viðskiptahætti. Þetta er mál sem ég hef nokkuð hreyft við í þinginu og ég vil leyfa mér að lesa örlitla frásögn sem birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, í fréttaskýringu eftir Bjarna Ólafsson blaðamann. Þar segir blaðamaðurinn, með leyfi forseta:

„Hlutabréfaeign á við eðlilegar aðstæður að vera ein þeirra leiða sem almenningur hefur til að ávaxta fé sitt. Það að græða á kaupum og sölu á hlutabréfum, að elta hækkanir og lækkanir á mörkuðum, er frekar iðja sérfræðinga en almennra hluthafa. Margir eiga hlutabréf í sínu félagi svo árum eða jafnvel áratugum skiptir og fá sína ávöxtun í formi arðgreiðslna. Þeir kippa sér ekki endilega upp við það þótt hlutabréfaverð taki tímabundna dýfu, vegna þess að þeir hafa ekki hug á að selja bréfin hvort eð er. Þessir smáu hluthafar skipta stærri leikmenn litlu máli.“

Þetta er auðvitað einn angi þessa máls sem hér er verið að ræða; meðhöndlun á þessum litlu hluthöfum sem hafa skipt svo miklu máli í efnahagslegri uppbyggingu á Íslandi. Fjöldi fólks hefur nurlað saman aurum og lagt inn í fyrirtæki, bæði til að ávaxta fé sitt og einnig til að dreifa áhættunni og freista þess að fá meiri ávöxtun en hægt er með venjulegum sparnaði á sparireikningum bankanna. Þetta hefur líka verið aðferð almennings til að taka virkan þátt í uppbyggingu atvinnulífsins og njóta ávaxtanna þegar vel gengur. Hins vegar hefur skort mikið á að séð væri fyrir hagsmunum minni hluthafa. Þótt ýmislegt hafi verið gert í þessum efnum er það mjög miður hve illa hefur í raun og veru verið farið með marga litla hluthafa í okkar þjóðfélagi. Það hefur t.d. verið vakin athygli á því að bara í hruninu í haust er talið að 47 þúsund einstaklingar hafi tapað u.þ.b. 130 milljörðum kr. á einni viku vegna hlutafjáreignar í bönkum sem nú er verðlaus. Til viðbótar við þetta kemur sú lækkun sem varð á hlutabréfum á árinu 2008 og enn fremur að hlutabréf í öðrum fyrirtækjum hafa verið að lækka. Eignir fyrirtækjanna hafa dregist saman og litlu hluthafarnir, sem blaðamaðurinn sem ég vitnaði til áðan lýsti svo ágætlega, eru algerlega óvarðir í þessu sambandi. Þetta er m.a. það erindi sem ég á við hv. formann viðskiptanefndar — ég vil spyrja hæstv. forseta hvort formaður viðskiptanefndar sé ekki nærri og geti hlýtt á mál mitt.

(Forseti (ÞBack): Forseti getur ekki heyrt betur en hv. formaður viðskiptanefndar sé í hliðarherbergi.)

Virðulegi forseti. Ræða mín er ekki löng og þess vegna vil ég biðja hv. formann (Gripið fram í.) — Það er gott að hv. formaður viðskiptanefndar heyrir orð mín vegna þess að til viðbótar við það sem ég hef sagt almennt um málið og hvernig það ber að, að ég telji að skortur sé á ákveðinni upplýsingagjöf í þessu frumvarpi þótt ég skelli ekki skuldinni á nefndina eða hv. formann nefndarinnar — til viðbótar við þetta allt saman á ég það erindi við hv. formann að vekja athygli á því að hluti af þeim óréttmætu viðskiptaháttum sem hafa tíðkast í okkar samfélagi lúta að meðhöndlun og meðferð á litlum hluthöfum í atvinnulífi okkar. Ég hef oft gert grein fyrir því hvernig þessi mál blasa við mér og ég hef talið fulla ástæðu til þess, þótt fyrr hefði verið, að við hertum þessa löggjöf mun meira en gert hefur verið. Eins og ég rakti hefur ýmislegt gerst í þessum efnum en það vantar mjög mikið upp á.

Á sínum tíma hafði ég ásamt þingmönnum úr öllum þingflokkum sem þá sátu á Alþingi forgöngu um að flytja tiltekin frumvörp í þessa veru. Þau frumvörp voru illu heilli ekki afgreidd frá Alþingi á þeim tíma af ástæðum sem mér eru í sjálfu sér ekki ljósar nema um hafi verið að ræða þetta gamla tregðulögmál sem gildir þegar þingmenn flytja þingmál. Ég ákvað þess vegna núna í vor ásamt félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum að flytja mál á grundvelli þessara frumvarpa sem svo breið pólitísk samstaða hafði skapast um þótt Alþingi hefði ekki afgreitt þau.

Þingsályktunartillagan gengur út á að hæstv. viðskiptaráðherra skipi nefnd til að leggja fram hugmyndir að þeim breytingum sem þyrfti að gera á lögum til að tryggja betri stöðu minni hluthafa. Ég tel að þetta eigi beint erindi í umræðuna núna vegna þess að við fjöllum um afmarkaðan þátt tilskipunar um óréttmæta viðskiptahætti. Þegar við horfum á þessa hluti er enginn vafi á að margt ljótt hefur gerst innan hlutafélaga þar sem hagsmunir minni hluthafa hafa verið fyrir borð bornir. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann að því, í ljósi þess sem ég hef þegar rakið og vegna þess að á bak við þessa tillögu er mjög breið almenn pólitísk samstaða — og ég vil til fróðleiks geta þess að þau tvö frumvörp sem eru fylgiskjal þingsályktunartillögunnar og á vissan hátt ákveðinn bakfiskur í þessari tillögu voru flutt af m.a. hæstv. núverandi fjármálaráðherra og hæstv. núverandi forsætisráðherra, auk mín. Þess vegna ætla ég að við þetta mál sé mikill almennur pólitískur stuðningur.

Þetta mál var eitt af þeim fyrstu sem flutt voru á Alþingi og það fór tiltölulega snemma inn í viðskiptanefnd. Mér er kunnugt um að þar hafa komið fram sjónarmið fjölmargra þeirra sem láta sér þessi mál varða. Ég hef kynnt mér þau sjónarmið í umsögnum sem hafa borist nefndinni og þar er allt á sömu bókina lært. Allir þeir sem á annað borð taka efnislega afstöðu til málsins hvetja til þess að málið verði afgreitt frá þinginu. Þess vegna vil ég spyrja hv. formann nefndarinnar hvort hún hafi hugleitt að þetta mál verði afgreitt núna fyrir þinglok þannig að Alþingi geti tekið afstöðu til málsins. Ég geri það í tilefni af þessu frumvarpi til laga um óréttmæta viðskiptahætti vegna þess að stór angi þess máls eru óréttmætir viðskiptahættir, a.m.k. mjög ósanngjarnir viðskiptahættir sem hafa tíðkast innan hlutafélaga í ýmsum tilvikum og hafa átt sinn þátt í að fjölmargir einstaklingar urðu fyrir meiri skaða en ella hefði orðið í þeim darraðardansi og því hruni sem varð hér á sl. hausti.