137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[18:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða þetta mál sem ég ræddi einnig við 1. umr. og velti því þá upp hvort hér væri um að ræða einhvers konar sjónarspil sett fram af hálfu ríkisstjórnarinnar eða stjórnarflokkanna til að afla sér vinsælda. Fleiri þingmenn hafa svo sem nefnt það í dag. Þrátt fyrir orðalagsbreytingar sem lagðar eru til í nefndarálitinu undirstrikar það margt af því sem hefur verið að velkjast í huga manns varðandi þetta mál.

Í sjálfu sér er gott og gilt að setja fram markmið sem þessi, að enginn skuli hafa hærri laun heldur en eitthvað tiltekið, í þessu tilfelli laun hæstv. forsætisráðherra. En e.t.v. hefði verið betur heima setið en af stað farið í þá miklu vegferð sem er hafin og þær örfáu milljónir sem þetta á að spara, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum.

Ég velti því fyrir mér enn á ný hvaða skilaboð við sendum með málum sem þessum. Það lítur vel út, frú forseti, þegar við segjum svona hluti. Þetta er dæmi um mál sem okkur detta í hug á góðri stundu og mönnum finnst mjög snjallt að setja fram en þegar farið er að reikna og hugleiða hlutina eru þeir ekki jafnsnjallir og virtist vera.

Þegar ég las hverjir komu á fund efnahags- og skattanefndar fór ég að hugsa um stéttarfélög þeirra sem vinna hjá ríkinu og þetta getur haft óbein áhrif á. Hvort BSRB, svo eitthvert dæmi sé tekið, hefur velt þessu máli fyrir sér. Þá horfi ég á málið út frá því sem ég nefndi í ræðu minni við 1. umr., þ.e. hvort ríkisvaldið sé hugsanlega að setja eins konar tappa í þá möguleika sem almennir starfsmenn ríkisins hafa til að ná fram kjarabótum. Líta má þannig á að þegar búið er að binda laun æðstu stjórnenda við ákveðna tölu eða einhvern ákveðinn punkt ætli ríkisvaldið að halda öðrum starfsmönnum eða stéttum í ákveðinni fjarlægð frá því viðmiði. Hugleiða má hvort það sé eðlilegt að tilteknir heilbrigðisstarfsmenn eða almennir starfsmenn ríkisins séu með hærri laun en forsætisráðherra eða mun t.d. hjúkrunarfræðingum ganga verr að semja um laun við ríkisvaldið þegar búið er að setja viðmiðun sem þessa. Á þessu máli eru margar praktískar hliðar sem ég hef fyrst og fremst áhyggjur af. Ég get ekki séð að þetta mál skipti sköpum fyrir ríkissjóð, um er að ræða örfáar milljónir í sparnað. Ég hef meiri áhyggjur af því að þessi ákvörðun muni leiða til þess að við gerum starfsmönnum ríkisins erfiðara fyrir með að sækja sér hugsanlega réttlátar launahækkanir og launabreytingar. Verið er að byggja upp kerfi sem á að taka mið af einum starfsmanni ríkisins, í þessu tilviki forsætisráðherra. Enn og aftur má velta fyrir sér hvort laun forsætisráðherra séu yfirleitt rétti viðmiðunarpunkturinn en að miðað við þá vinnu sem ég sé hæstv. forsætisráðherra inna af hendi held ég að hún sé ekkert ofsæl af þeim launum sem hún fær.

Í nefndarálitinu kemur fram við hverja ekki er átt. Þá vaknar spurning um hvað þessi ákvörðun taki til margra og í framhaldi af því hvort við erum enn að tala um 50 millj. kr. Er upphæðin sem á að spara með þessu hugsanlega enn lægri, 20 millj. eða 30 millj.? Ef svo er finnst mér enn þá draga úr vægi rakanna sem hafa verið uppi, um að nauðsynlegt sé að sýna svart á hvítu hver hugur ríkisvaldsins er. Ef markmiðið er að spara og halda í við starfsmenn ríkisins almennt er heiðarlegra að segja það. Mér þætti gott að fá að vita hvort svo sé. Að verið sé að segja við ríkisstarfsmenn: Laun ykkar munu ekki hækka á næstu árum eða breytast vegna þess að við erum búin að setja ákveðin viðmið og eðlilegt er að ákveðin fjarlægð sé á milli æðstu stjórnenda, eða handhafa ríkisvaldsins, og annarra starfsmanna. Mjög heiðarlegt væri að segja það ef svo er.

Ég velti líka fyrir mér enn á ný hvort þetta geti haft í för með sér atgervisflótta úr starfsstéttum hjá ríkisvaldinu þar sem krafist er mikillar menntunar og leiði hugsanlega til þess að við sjáum á bak hæfu og góðu fólki. Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki. Svarið gæti hugsanlega verið að þetta eigi við fáa aðila og muni ekki hafa áhrif á önnur laun eða möguleika annarra til að semja um laun sín. En ég held því miður að það svar komi ekki hér en svarið sé það sem ég nefndi áðan, að markmiðið sé í raun að halda aftur af launaþróun ríkisstarfsmanna í heild og þetta sé leiðin sem er farin í stað þess að segja það hreint út. Svo við setjum þetta í samhengi þá erum við að tala um að örfáar milljónir sparast með að mínu viti ófyrirsjáanlegum afleiðingum ef illa fer. Áðan var bent á að samningamönnum Íslands í Icesave-samningnum þótti lítið mál að samþykkja að borga 2 milljarða lögfræðikostnað við Icesave-samningana, ef ég hef tekið rétt eftir. Þá er mjög merkilegt að við erum orðin svo áttavillt í tölum að 2 milljarðar af 700 séu svo lítið mál að okkur finnist sjálfsagt að borga það en að 30 eða 50 millj. séu gríðarlega mikilvægar í sparnaði í launum hjá starfsmönnum ríkisins. Hver er samfellan hjá þeim sem fjalla um þessi mál?

Einnig má benda á að fyrir skömmu var ekki tiltökumál að samþykkja að sækja um aðild að Evrópusambandinu og kosta til þess a.m.k. 1 milljarði, en það mun væntanlega kosta mun meira. Spurningin er enn þá hvort ekki sé eðlilegt að það sé tækifæri til að borga sanngjörn og mjög ásættanleg og góð laun þeim ríkisstarfsmönnum sem eru mjög hæfir, hafa menntun og reynslu og við viljum hafa í vinnu hjá okkur.

Ef ætlunin er að sýna gott fordæmi fyrir vinnumarkaðinn í heild, bæði opinbera geirann og einkageirann, þá held ég að það hafi algerlega mistekist vegna þess hversu í sjálfu sér lítilfjörleg upphæðin er og væntanlega til fárra sem þetta nær beint, en ég óttast að nokkru leyti að áhrifin verði víðtækari. Ég hef ekki trú á að þetta eitt og sér hafi áhrif á einkageirann vegna þess að í þeim geira hafa áföllin sem dunið hafa yfir orðið til að menn endurskoða hlutina, en áfallið sem ríkissjóður hefur orðið fyrir verður ekki leyst með þessari aðgerð eða svipuðum. Við vitum alveg að launakostnaður ríkisins er einn stærsti pósturinn af kostnaði við rekstur ríkisins. Þar ber hæst menntakerfið og heilbrigðiskerfið, boðaður hefur verið niðurskurður hjá ríkisvaldinu og væntanlega þá mest á þessum tveimur stoðum kerfisins og á félagspakkanum, ef má orða það þannig. Við höfum hins vegar ekki enn fengið að vita hvernig niðurskurðurinn lítur út en þar er vitanlega verið að tala um hærri upphæðir en hér.

Ég hef miklar efasemdir, frú forseti, um að hér sé verið að fara af stað með mál sem skiptir nokkrum sköpuðum hlut í þjóðfélaginu, til að uppfylla hugmyndir sem hafa orðið til hjá stjórnarflokkunum um að það gæti verið gott að slá þessu fram. Í sjálfu sér er ágætt að það sé þá búið, því markmiði náð og hægt að merkja við það í 100 daga áætluninni. En þetta lyktar frekar af vinsældaveiðum heldur en einhverju öðru og er alls ekki til þess fallið að senda skilaboð varðandi það hömluleysi sem varð í launastrúktúr, sérstaklega í fjármálageiranum. Þetta er að mínu viti óskylt og sá geiri hefur sannarlega fundið fyrir því, er meira eða minna farinn á höfuðið og hefur væntanlega lært af því. Það þarf ekki að kenna honum lexíu með þessu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég hef áhyggjur af að verði þessi viðmið tekin upp geti þau haft áhrif á möguleika annarra starfsmanna eða stétta til að ná fram réttlátum kjarabótum. Verið sé að setja ný viðmið sem erfitt verður að komast frá aftur. Þetta eru ekki rétt viðmið því að miðað við þá gríðarlegu vinnu, ábyrgð og álag sem er á hæstv. forsætisráðherra eru hennar laun alls ekki of mikil. Það er mín persónulega skoðun og ég held að í þessu tilfelli hefði verið betra heima setið en af stað farið því að árangurinn sem á að nást verður enginn.