137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[21:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 241, 147. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.

Þann 23. október 2007 heimilaði ríkisstjórnin staðfestingu á sex ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fela í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Efnislega var um að ræða endurskoðun á undanþágu Íslands frá I. kafla í viðauka I við EES-samninginn og upptöku löggjafar Evrópusambandsins um matvæli og fóður inn í EES-samninginn.

Ofangreindar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar voru staðfestar af nefndinni 26. október 2007 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Lagafrumvarpið kveður á um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru vegna ofangreindra breytinga á EES-samningnum og innleiðingar ofangreindrar EES-löggjafar um matvæli og fóður.

Frumvörp með sama heiti voru lögð fram bæði á 135. og 136. löggjafarþingi en voru ekki afgreidd. Við framlagningu þessa frumvarps nú eru gerðar nokkrar efnislegar breytingar frá fyrra frumvarpi sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi. Ég kýs að þessu sinni að útskýra þær eingöngu sérstaklega en vísa að öðru leyti til fyrri umræðna um önnur atriði sem ekki er þörf á að endurtaka hér.

Að lokum hér í inngangi vil ég ítreka að mjög mikilvægt er að þetta matvælafrumvarp fái nú afgreiðslu á Alþingi til nefndar og fyrir frestun þingsins og nái að ljúkast á þessu þingi áður en nýtt þing hefst. Umtalsverðir hagsmunir eru í húfi sem snerta samskipti okkar innan EES. Það á sérstaklega við um Norðmenn sem eru algjörlega háðir því að þetta frumvarp verði samþykkt samanber reglur EES. Ráðuneytið fékk síðast í dag fyrirspurn frá norska sendiráðinu um gang málsins. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd verður auk þess að fá nægan tíma til þess að fjalla um þetta viðamikla mál.

Helstu breytingar núna eru eftirfarandi, þ.e. breytingar frá fyrra frumvarpi:

Frumvarp þetta er í samræmi við efnisákvæði ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, helst og er ekki afnumið. Sama á við um alidýraáburð og rotmassa sem er blandaður alidýraáburði en slíkur innflutningur er óheimill. Innflutningsbanni er viðhaldið með það að markmiði að tryggja núverandi stöðu sjúkdómavarna vegna dýra og manna. Þá er ekki síst höfð í huga langvarandi einangrun búfjárstofna okkar sem reynslan hefur sýnt að geta verið sérlega næmir fyrir sjúkdómum sem litlum skaða valda í öðrum löndum.

Tiltaka má hér, sem ekki hefur verið haldið mjög á lofti, að frystikrafan kemur til að mynda í veg fyrir að tríkínur geti borist með fersku kjöti til landsins en Ísland er tríkínulaust svæði í dag. Sníkjudýr þessi lifa líka auðveldlega í mönnum en menn smitast ekki nema við neyslu á hráu kjöti. Sníkjudýrin geta verið banvæn berist þau í fólk og því er gífurleg áhersla lögð á eftirlit með þessu í kjötskoðun flestra landa. Suða og frost drepa þessi sníkjudýr. Þetta felur í sér að Ísland er viðurkennt sem tríkínulaust land sem þýðir að eftirlitskostnaður getur verið langtum minni en hjá löndum sem ekki hafa slíkar viðurkenningar.

Ég vil einnig vekja sérstak athygli á að stór og mikil landbúnaðarframleiðslulönd eins og Ástralía og Suður-Afríka heimila ekki innflutning á hráu, ófrystu kjöti. Þetta eru bæði lönd sem treysta mjög á útflutning landbúnaðarafurða og kæmust ekki upp með bönn af þessu tagi nema fyrir lægju góð og gild rök og það eru sömu rökin og hér eru sett fram. Ég tek skýrt fram að innflutningsbann á ófrosnu kjöti er því númer eitt heilbrigðismál manna og dýra. Augljóst er að annars mundi ESB eða GATT fljótt grípa til sinna ráða burt séð frá því hvað gerist á vettvangnum innan EES.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að matvælalöggjöf ESB muni taka gildi hérlendis með samþykkt þessa frumvarps. Þannig verða sömu heilbrigðiskröfur gerðar til matvælaframleiðslu hérlendis og á EES-svæðinu. Þetta á jafnt við um búfjárafurðir, þ.e. kjöt, mjólk og egg sem og sjávarafurðir. Jafnframt munu gilda sömu lagareglur um matvælaeftirlit með þessum afurðum hérlendis og á EES-svæðinu að öðru leyti en því að innflutningseftirlit með hráu kjöti frá EES-svæðinu verður eins og verið hefur. Þegar um er að ræða hrátt kjöt þarf að framvísa fullgildum heilbrigðisvottorðum og eftir atvikum framkvæma sýnatökur enda hefur áður verið aflað innflutningsleyfis. Slík leyfi eru nú nær eingöngu veitt fyrir frosið kjöt, og ekki er gert ráð fyrir breytingum þar á. Hvað varðar alidýraáburð og rotmassa sem er blandaður alidýraáburði helst innflutningsbann, og eftirlitsreglur því óbreyttar.

Í frumvarpinu er skýrt kveðið á um skyldur ráðherra, eftirlitsaðila og stjórnenda matvælafyrirtækja til að koma í veg fyrir að matvæli sem geta valdið matarsýkingum komist á markað. Í þessu skyni er m.a. sett inn nýtt ákvæði sem leggur þá skyldu á ráðherra að setja reglugerð um ráðstafanir sem gera skal til að fyrirbyggja markaðssetningu slíkra matvæla, m.a. með vottorðagjöf, samanber. 5. gr. frumvarpsins og athugasemdir við hana.

„Til að tryggja ýtrasta matvælaöryggi og vernda líf og heilsu manna og dýra skal ráðherra setja reglugerð þar sem kveðið er almennt á um sýnatökur, vottorðagjöf og skilyrði markaðssetningar matvæla til að fyrirbyggja að þau geti valdið matarsjúkdómum.“

Jafnframt liggja fyrir drög að breytingum á reglugerð nr. 688/2002 sem fjallar um slátrun og markaðssetningu alifugla þar sem kveðið er á um skilyrði markaðssetningar innlendrar og erlendrar framleiðslu alifuglakjöts.

2. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993 verður óbreytt efnislega. Matvælastofnun var heimilt að leyfa innflutning samkvæmt ákvæði eldra frumvarps. Ráðherra hefur þetta vald núna samkvæmt frumvarpinu og því er 2. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993 færð aftur í fyrra horf.

2. mgr. 41. gr. frumvarpsins frá 136. þingi, sem er ákvæði til bráðabirgða, er felld burtu en þar var ráðherra heimilt með reglugerð að ákveða skiptingu og fjölda dýralæknaumdæma samkvæmt 11. gr. laganna aðra en þar greinir í þeim tilgangi að unnt væri að gera breytingar á umdæmum í áföngum. Matvælastofnun er gert að spara umtalsverða fjármuni í rekstri og talið hagkvæmt að að gera umræddar breytingar á skemmri tíma en eldra frumvarp gerði ráð fyrir.

Gildistöku 43. gr. frumvarpsins sem fjallar um eftirlitskostnað vegna slátrunar er breytt sbr. 79. gr. frumvarpsins. Ákvæðið tekur gildi 1. september 2009 en þetta er annað tímamark en gilti um önnur ákvæði IV. kafla sem taka gildi 1. maí 2011. Ástæða þessa er sú að brýnt þykir, m.a. vegna tilmæla frá umboðsmanni Alþingis, að leiðrétta kjötskoðunargjald þannig að greiddur sé raunkostnaður af eftirliti með öllum tegundum búfjár.

Skýrt er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um erfðabreytt matvæli og merkingar þeirra. Sama á við um fóður, samanber 28. og 70. gr.

Jafnframt er það áréttað að matvæli mega ekki innihalda lyf eða lyfjavirk efni með sama hætti og fæðubótarefni, samanber 8. gr. frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir að matvælalöggjöf ESB taki gildi hérlendis 1. september 2009 enda verði Alþingi búið að samþykkja meðfylgjandi frumvarp fyrir þann tíma. Efnisákvæði sem varða búfjárafurðir taka þó ekki gildi fyrr en 1. maí 2011.

Hvað varðar hrátt, ófrosið kjöt vil ég hér tiltaka sérstaklega að það hvarflar ekki að mér annað en að rök mín fyrir innflutningsbanni standist skoðun enda byggja þau á skyldu stjórnvalda gagnvart 13. gr. EES-samningsins. Ef til þess kemur að eftirlitsaðilar eða aðrir dragi það í efa mun því verða mætt af fullri einurð. Ég hef heyrt því haldið fram, frú forseti, að um sé að ræða bráðabirgðaráðstöfun sem ekki haldi nema í 20 mánuði þar til hinn stjórnskipulegi fyrirvari sé fallinn úr gildi. Ég ítreka að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir áframhaldandi innflutningsbanni og er ekki fyrirhugað að á því verði nein breyting.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.