137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

3. fsp.

[15:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af þeirri umræðu sem hér átti sér stað áðan vildi ég heyra álit hæstv. forsætisráðherra á því hvort verið geti að það hafi verið eitthvað óljóst á hvaða forsendum norrænu ríkin veittu lán til Íslands. Hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan í ræðu sinni það sem við töldum okkur öll vita, að þessi norrænu lán ætti að nota til þess að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Hins vegar bendir skýrsla sem sænska ríkisstjórnin sendi til sænska þingsins fyrir réttum mánuði síðan til þess að það hafi eitthvað annað verið undir en fram hefur komið.

Þar er ég að vísa til setningar í skýrslunni þar sem fram kemur að norrænu lánveitendurnir, norrænu ríkin hafi gert það að skilyrði að Ísland næði samkomulagi við Bretland og Holland um lánveitingar vegna innstæðutrygginga og nefnt er til skýringar að hinir norrænu lánveitendur vilji með þessum hætti útiloka að fjármunir frá norrænu lánunum renni beint til Hollands og Bretlands. Mér finnst augljóst að þarna hefur einhver misskilningur verið á ferðinni og ég velti fyrir mér því hvort hæstv. forsætisráðherra geti upplýst um það hvort þessi misskilningur um að lánin frá norrænu löndunum eigi að nota til þess að borga beint til (Forseti hringir.) Breta og Hollendinga, þ.e. hvort þetta hafi verið útbreiddur misskilningur hjá hinum norrænu ríkjum.