137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli hv. þm. Péturs Blöndals kemur fram stór misskilningur. Hann stafar af þeirri staðreynd að mínu mati að Sjálfstæðisflokkurinn stóð að málum hér sl. haust. Það er ekki búið að skrifa undir samningana. Það er gert með þeim fyrirvara að ríkisábyrgðin verði virk. Ef ríkisábyrgðin verður ekki virk eru engir samningar. Það er mjög mikilvægt að þessu sé haldið til haga vegna þess að því hefur verið haldið fram að ríkissjóður gæti orðið gjaldþrota ef ríkisábyrgðin yrði ekki samþykkt. Það er alrangt. Hann hefði bara sömu stöðu og hann hefur í dag, engir ósanngjarnir samningar.

Það er alveg hárrétt að Framsóknarflokkurinn tók þátt í þeirri vinnu sem hinn brothætti meiri hluti átti þátt í að vinna. Þetta var gríðarlega mikilvæg vinna og á stóran þátt í að staðan er sú að það á a.m.k. að setja fyrirvara. Hins vegar vil ég taka fram að það er búið að taka allt bit úr þeim fyrirvörum, bæði efnahagslegum og lagalegum. Þeir hafa í rauninni lítið eða nær ekkert gildi, svo ég tali fyrst og fremst um lagalegu fyrirvarana. Út á það ganga breytingartillögurnar og undir lok viðræðnanna bárum við fram þá spurningu: Er meiri hlutinn raunverulega til í að ræða við Framsóknarflokkinn um að nálgast þá, varðandi Ögmundarfyrirvara. Við sögðum: Gefið okkur svar, ef það er jákvætt skulum við koma með tillögur í fyrramálið. Þá var komið um eða yfir miðnætti, (Forseti hringir.) svo það var nú eðlilegt að slíta fundi þá. Það var ekki gert en breytingartillögurnar sem eru núna (Forseti hringir.) eru nánast það samkomulag sem lá fyrir hjá hinum brothætta meiri hluta.