137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir mjög kröftuga og skelegga ræðu. Það er alltaf gaman þegar þingmaðurinn kemur í ræðustól og lætur gamminn geisa. Hann lýsir því í ræðu sinni hver upplifun hans af því að vera í samskiptum við Samfylkinguna hefur verið og þau hótunarstjórnmál sem Samfylkingin stundar. Okkur hefur verið hótað t.d. með EES-samningnum, að EES-samningurinn væri í uppnámi ef við mundum ekki samþykkja ríkisábyrgð. Nú hefur hið gagnstæða komið í ljós. Það bíða 50–60 mál úrlausnar hjá EFTA-dómstólnum sem erlendir aðilar ætla jafnvel að höfða gegn okkur, þeir segja að við höfum sjálf sagt samningnum upp með því að setja neyðarlögin og setja á gjaldeyrishöft. Okkur hefur verið hótað að við fáum ekki lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ef Icesave-samningarnir verða ekki samþykktir og svona má lengi telja. Þessar hótanir eru orðnar frekar þreytandi að mínu mati. Því var hótað að ef við mundum ekki samþykkja aðildarumsókn að Evrópusambandinu væri allt saman í kaldakoli og ekki nokkur leið fyrir þjóðina að rísa úr þeirri stó sem hún er í. Okkur var lofað lægri vöxtum, lægra matarverði, styrkingu á gengi og lækkun á stýrivöxtum, eins og við vitum, en ekkert hefur gerst (Gripið fram í.) þannig að sú hótun er eins og aðrar hótanir hjá Samfylkingunni, heldur innihaldslaus. Því vil ég spyrja þingmanninn: Hvað heldur hann virkilega að gerist og hvernig sér hann framtíðina fyrir sér ef Alþingi tekur sig til og hafnar þeim neyðarsamningum sem Icesave-samningarnir eru og ef það hafnar ríkisábyrgðinni á samningunum og sendir þá aftur til baka til að semja upp á nýtt?