137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu svo mikið sem ég náði af þeim ágæta málflutningi, en mér líkaði vel það sem hv. þingmaður hafði fram að færa, sérstaklega áhersluna á það að Alþingi Íslendinga fari með mjög vönduðum hætti yfir þetta mál vegna þess að við erum að tala hér um stærstu skuldbindingu sem íslensk þjóð hefur undirgengist í lýðveldissögunni trúlega.

Ég vil því spyrja hv. þingmann í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað hér í þinginu í dag og í gær hvort hún telji ekki að það hafi verið fullsnemmt að taka málið út úr fjárlaganefnd aðfaranótt laugardagsins í ljósi þess að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu og stjórnarliðar hins vegar túlka niðurstöðu nefndarinnar með gjörólíkum hætti. Sjálfstæðismenn segja að sú niðurstaða sem fyrirvarar meiri hluta fjárlaganefndar sé séu í raun og veru nýir samningar á meðan fulltrúar stjórnarmeirihlutans tala um að þetta rúmist innan rammans og hafi í raun og veru engin áhrif á samningana sem slíka. Það tók náttúrlega steininn úr í morgun þegar varaformaður fjárlaganefndar kom í umræðuna og sagði að þessir fyrirvarar hefðu litla sem enga þýðingu.

Ég spyr því hv. þingmann hvort hún telji ekki að það hafi verið mistök í ljósi þessa að menn hafa greinilega lagt mismunandi mat á niðurstöðu meiri hluta fjárlaganefndar að taka málið út aðfaranótt laugardagsins og það hefði verið vert að halda fleiri fundi þannig að menn næðu sameiginlegri niðurstöðu í þessu.

Að því gefnu að fyrirvararnir hafi raunveruleg áhrif vil ég einnig spyrja hv. þingmann að því hvort hún hyggist styðja þá breytingartillögu okkar framsóknarmanna um fyrirvara á þá leið að við borgum ekki vexti af þessum Icesave-samningum frá og með síðustu áramótum heldur frá og með 27. júlí. Þar munar 25 milljörðum kr. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra að þessu í gær og hann kvað að við ættum að greiða þessi 25 milljarða þó að við séum ekki enn búin að afgreiða ríkisábyrgðina hér frá Alþingi Íslendinga.