137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni kærlega fyrir ræðu hans. Nú er mér kunnugt um að þingmaðurinn kom m.a. að því að smíða þessa efnahagslegu fyrirvara og tengdist þeim hópi sem kom saman til þess. Þingmaðurinn situr í efnahags- og skattanefnd sem fastafulltrúi þar. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra aðeins frá honum hvort hann telji þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í efnahags- og skattanefnd í öllu þessu ferli þessa máls í gegnum þingið hafa verið ítarleg og vönduð.

Nú er það þannig að ég hef upplýsingar um að ýmsir fulltrúar fyrir utan hv. þingmann sem unnu þessi efnahagslegu viðmið eða fyrirvara sitja sem fastafulltrúar í efnahags- og skattanefnd. Fjárlaganefnd fól einmitt efnahags- og skattanefnd að gera úttekt á greiðslugetu þjóðarbúsins til að standa undir Icesave-skuldbindingunni en þegar meirihlutaálitið lá loksins fyrir er samt sem áður tekin ákvörðun um það í fjárlaganefnd að óska eftir að Hagfræðistofnun gerði úttekt á m.a. greinargerð Seðlabankans og greinargerðum frá fjármálaráðuneytinu sem fylgdu þessu frumvarpi. Ég hefði því gjarnan áhuga að heyra skoðanir hans á því hvernig honum fannst vinnan í efnahags- og skattanefnd hafa verið varðandi þetta mál og hvort hann gæti skilgreint hana sem ítarlega og vandaða.