137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um mat mitt á því hverjir séu möguleikarnir á því að Bretar og Hollendingar samþykki þessa fyrirvara, upplýsi ég það hér og nú að ég hef ekki hugmynd um það. Ég get alveg fullyrt að hér á hv. Alþingi gætu verið 63 ólíkar skoðanir uppi um það álitamál. Við 2. umr. málsins undirstrikaði ég og gerði það einnig í ræðu minni áðan að það er einungis á færi Breta og Hollendinga að svara því. Það er ekki hægt að ætlast til þess að við getum svarað þessu með einhverjum afdráttarlausum hætti. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þau skilyrði og þeir fyrirvarar sem breytingartillögur fjárlaganefndar gera ráð fyrir að gildi um ríkisábyrgðina séu þess eðlis að það hljóti að þurfa að virkja ákvæði greinar 13.1.1 í breska samningnum og greinar 12.1 í hollenska samningnum þar sem kveðið er á um að allar breytingar á þeim samningum sem gerðar voru skuli gerast skriflega. Það er augljóst í mínum huga einfaldlega vegna þess, eins og hér hefur komið fram bæði í ræðu hv. formanns fjárlaganefndar Guðbjarts Hannessonar og í ræðu minni áðan, að þetta eru það umfangsmiklar breytingar að við erum að ræða allt annað mál en lagt var upp með þann 2. júlí.