137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við lokaafgreiðslu málsins stöndum nú við frammi fyrir frumvarpi sem á ekkert skylt við það frumvarp sem ríkisstjórnin tefldi fram fyrr í sumar. Þingið hefur komið að hverri einustu grein þessa máls og breytt og aðlagað að þeim kröfum og umræðum sem verið hafa í þinginu. Nú eru greidd atkvæði um mál sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafa átt stóran þátt í að mynda. Þannig er málið eins og umræðan hefur sýnt, allt öðruvísi vaxið en til stóð. Það breytir því ekki að ríkisábyrgðin sem verið er að greiða atkvæði um er nátengd samningunum sem ríkisstjórnin skrifaði upp á og hún hefur, með því að láta undir höfuð leggjast að gæta hagsmuna okkar (Forseti hringir.) með samskiptum við önnur stjórnvöld, komið málinu í þennan ómögulega farveg. Ég hyggst ekki greiða atkvæði gegn frumvarpinu sem orðið hefur til með þessum hætti sem ég hef lýst heldur sit ég hjá og lýsi þannig ábyrgð á málinu í heild á hendur ríkisstjórninni.