138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[14:55]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er mjög mikill óróleiki á stjórnarheimilinu. Við höfum fundið það hér inni í dag að hæstv. ráðherrum líður mjög illa, þeir eru fölir og fáir og eru sjálfsagt að hugsa um það hvenær hæstv. fjármálaráðherra lendir í Keflavík með slökkvitækið til að slökkva eldana hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og öðrum í VG. (Gripið fram í.) Það er engu líkara en að ríkisstjórnin sé óstarfhæf eins og staðan er í dag.

Það er líka mikill óróleiki á öðrum heimilum í landinu. Við stöndum frammi fyrir skattahækkunum, hækkunum á matvælaverði, atvinnuleysi er talsvert og svona má áfram telja. Það þarf að taka á þessum óróleika, það þarf að dempa hann, það þarf að taka á skuldum heimilanna.

Framsóknarflokkurinn kom fram með hugmyndir fyrir þó nokkru síðan um að gerð yrði 20% leiðrétting á höfuðstóli skulda. Ríkisstjórnin valdi að skjóta þær tillögur á færi. Núna er sem betur fer að verða breyting þar á, það er að koma útspil frá ríkisstjórninni sem okkur hugnast ágætlega í augnablikinu en við viljum reyndar skoða þær hugmyndir miklu betur í nefnd. En ég vil taka undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sem lýsti því yfir að við framsóknarmenn erum öll af vilja gerð til að skoða nánar þær hugmyndir sem núna hafa komið fram. Duga þær til? Er hægt að útfæra þær betur o.s.frv.? En við viljum sjá — og það er ákall frá okkur — almenna leiðréttingu á höfuðstól.

Fyrir stuttu kom út skýrsla frá Háskóla Íslands um stöðu íslensks samfélags og þar er undirstrikað að endurreisnin sem nú þarf að fara fram mun byggja á þeim útflutningsgreinum og atvinnutækifærum sem þegar eru í landinu. Það eru sérstaklega þrjár greinar: Það er stóriðjan, það er sjávarútvegurinn og það er ferðaþjónustan. Þess vegna skora ég á ríkisstjórnina að hlúa nú að þessum þremur vaxtarbroddum, ekki þvælast fyrir og eyðileggja það sem fram undan er þar. Það verður að hlúa að þessum vaxtarbroddum (Forseti hringir.) til að efla störf af því að þau störf sem skila sér hafa líka jákvæð áhrif á skuldir heimilanna.