138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra við framlagningu frumvarpsins að margt væri óútfært á tekjuhlið þess og undir það skal vissulega tekið. Fram kemur í frumvarpinu að fyrirhugað er í fyrsta sinn að leggja á orku-, umhverfis- og auðlindagjöld og ráðgert er að þau gjöld eigi að skila ríkissjóði inn 16 milljörðum kr. á næsta ári.

Í umsögn með frumvarpinu segir að hér sé um stóran gjaldstofn að ræða sem gefi miklar tekjur. Á síðustu dögum hafa farið fram mjög miklar umræður um þetta gjald og þessa fyrirhuguðu gjaldtöku. Hjá því verður ekki komist að hafa þau orð um umræðuna úr herbúðum ríkisstjórnarinnar að þau skilaboð um gjaldtöku þessa hafi verið mjög misvísandi. Mestar athugasemdir hafa komið frá stórum orkunotendum og er mjög áríðandi að þeir greiðendur fái úr því skorið hvað átt er við með álagningu þessari, ekki síst þegar haft er í huga að efnahagslegar forsendur frumvarpsins byggja á því að framkvæmdir hefjist við stóriðju í Helguvík og Straumsvík. Efnahagslegar forsendur og spár um hagvöxt benda til þess að hagvöxtur verði neikvæður um rétt tæp 2% á næsta ári en að hann verði jákvæður árið 2011. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvers væntanlegir greiðendur þessara gjalda eigi að vænta, hvort hér er um að ræða eina krónu á kílóvattsstund eða þá 10, 20 eða 30 aura, eða með hvaða hætti þetta er hugsað. Ég vænti þess að hann geti gefið skýr svör við þessu þannig að þessar öldur lægi sem fyrst.